Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Brækurnar í Skálholtskoti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Brækurnar í Skálholtskoti

Skálholtskot heitir bær einn við Reykjavík. Þar standa steinar fyrir bæjardyrum og er annar þeirra nokkru stærri en annar. Sá orðrómur lá á í fornöld að eigi mætti breiða neitt til þerris á hinn stærra steininn, því það heppnaðist ekki vel.

Eitt sinn var stúlka á bæ þessum við þvott og fáraðist mjög yfir þeirri hjátrú að menn skyldu ekki eins breiða þvottinn á hinn meira steininn og hinn minna. Þegar hún hafði þvegið þvottinn breiddi hún nærbrækur á hinn meira steininn og gekk svo inn. Að vörmu spori kom hún út aftur, og voru þá brækurnar burtu, en svarblátt farið eftir þær sést enn í dag á steininum, og eins er að sjá og sinn lækur renni undan hverri skálm ofan eftir steininum þar sem væta hefur runnið úr brókunum. Brækurnar hafa ekki fundizt né spurzt uppi enn í dag.