Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Brynjólfur biskup frelsar konu frá álfum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Brynjólfur biskup reisti einu sinni um sitt biskupsdæmi; hann hafði með sér þjónustustúlku eður kokkapíu sem höfðingja siður var á þeirri tíð. Hann áði á einni heiði og tjaldaði þar; með hönum var einn maður meðal annara, er voru í för með biskupi, er Jón hét og var kallaður Jón trölli vegna krafta hans og burða. Um kvöldið fóru menn að sofa og biskup einnin; en snemma um morguninn vaknar biskup og vakti þénara sína og saknar hann þá stúlkunnar og sagði hún væri heilluð á burt af álfum hvað sér illa félli so hefði tiltekizt. Segir hann þá við Jón trölla: „Þú skalt sitja á rúmi mínu, en ég ætla á burt að fara; en gáið þar að þið gangið ei út úr tjaldinu þar til ég kem aftur, en það segi ég þér Jón,“ segir biskup, „að kunni nú so að ske að stúlkan komi inn til þín þá skaltu taka hana og halda henni þar til ég kem, og þó hún biðji alúðlega sér að sleppa þá varastu það að gjöra.“ Tekur biskup þá einn sprota og gengur út úr tjaldinu og ristir þrjá hringi í kringum tjaldið, gengur síðan burt so þeir vissu ei hvað af hönum varð.

Þegar góð stund var liðin sjá þeir hvar stúlkan kemur hlaupandi og er skólaus á báðum fótum; hún hleypur inn í tjaldið og að höfðalagi biskups eins og hún ætti þangað nokkuð að sækja undir koddann. Jón tekur yfrum hana; en hún biður hann að sleppa sér því biskup hafi sent sig og verði hún því að flýta sér. Jón segir hún verði kyrr að vera, en hún brýzt um, biðjandi hann að sleppa sér, en Jón segir hún þurfi ei þess að biðja því að hún fái ei í burt að fara. Átti þá Jón nóg með að halda henni; en í þessum svifum sjá þeir koma tólf menn og riðu mikið; eru þeir allir á litklæðum, en þá þeir koma að yzta hringnum er biskup hafði rist kringum tjaldið var þá sem í þá sett væri píla so þeir hrukku frá og sneru til baka og hvörfu so menn biskups vissu ei hvað af þeim varð; að því liðnu kom biskup. Lét þá biskup setja stúlkuna í bönd því hún var tryllt orðin. Fór so biskup leiðar sinnar þaðan; en stúlkan smálagfærðist. En þá hún var komin til vits síns var hún að spurð hvar hún hefði verið eður hvörnin hún hefði úr tjaldinu farið. „Þegar ég var sofnuð,“ segir hún, „kom til mín maður og leiddi mig út úr tjaldinu; vissi ég so ei af mér meir fyrr en ég var komin í eina höll þar sem margt fólk var saman komið og var ég þá látin fara upp á einn pall er margt kvenfólk var, og þar var ég látin fara upp í eitt rúm og fenginn hör til að spinna. En þegar biskup kom og sendi mig í tjaldið hafði ég ei tíma til að binda á mig skóna því hann kallaði so að mér að fara.“ Enti hún so sitt mál þar um.

Brynjólfur biskup var haldinn í sinni tíð með jarðfróðari mönnum og mun að sögn manna þekkt [hafa] huldufólk og því vel trúað að það til væri, og skrifa ég ei framar hér um þó gæti.