Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Ekkjan í Höfn

Úr Wikiheimild

Í Höfn í Fljótum bjó eitt sinn ekkja sem Sigríður hét. Hún var fremur fátæk. Einu sinni sat hún uppi á palli hjá börnum sínum; sá hún þá að ókenndur maður, mjög stór, kom inn á gólfið, settist þar á stein og talaði ekki orð. Sýndist henni að þetta mundi ekki vera mennskur maður. Hún smeygði sér ofan og fram hjá honum og fram í búr. Hún átti þar nýmjólk í einu trogi, hún átti og ögn af skyri og graut og lét ofan í trogið og lét þar svo í búrsleifina sína. Nú bar hún inn fullt trogið og setti í hnén á manninum og fór svo upp á pallinn. Maðurinn át allt úr troginu, setti það upp á pallinn og sagði: „Hafðu þökk fyrir, kona góð, það er til að þitt verði ekki minna fyrir þetta.“ Svo gekk maðurinn út. Eftir þetta snerist ekkjunni allt til láns og varð hún innan fárra ára vel megandi.