Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Endurgoldin mjólk

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Endurgoldin mjólk

Á einum bæ í Eyjafirði bjuggu hjón ein rík. Þar var einu sinni byggt búr og varð nokkur partur af stórum steini jarðföstum innan veggjar í búrinu. Það var eitt kvöld snemma um veturinn að konan fór fram að skammta. Sér hún að þá er á steininum fjögra marka askur sem hún þekkir ekki. Spur hún líka vinnukonuna um askinn, en hún veit ekkert hver hann á. Lætur þá konan nýmjólk í askinn og setur á steininn, tók svo burtu lykilinn og ber inn með sér. Um morguninn kemur konan í búrið og skoðar askinn; er hann þá tómur. Svona lét konan allan veturinn nýmjólk í askinn á hverju kvöldi (eða hverju máli) og hvarf alltaf úr askinum. Líður nú til sumarmála. Á sumardagsnóttina fyrstu dreymir konuna að til hennar kemur ókunnug kona og segir: „Vel hefir þú nú gert að gefa mér nýmjólkina í allan vetur þar sem ég hefi þó engu vikið þér. Nú skaltu eiga í staðinn það sem verður í fjósinu hjá þér þegar þú kemur í það í fyrramálið.“ Með það hvarf hún. Á sumardagsmorguninn fyrsta kom konan í fjósið; er þá komin ljómandi falleg gráhöttótt kvíga ókunnug í fjósið. Þykist nú konan viss um að huldukonan hefði gefið sér kvígu þessa fyrir mjólkina. Hélzt kvíga þessi þar við og varð afbragðs kýr.