Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Enn af háttum huldufólks

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Iðuglegastar gengu sögur um huldufólk sem menn þóktust oft sjá færa lestar á kaupstaðaferðum á sumrum, fara með líkfylgdir og ekkjupersónan aftast; syngja sálma og byrja á endir, en syngja svo fram eftir; valda því að sköku- eða strokkahljóð heyrðist í hólum og klettum; bera ljós frá einum stað til annars; ókunnir drengir og menn hjálpa mennskum til smalamennsku, þó ekki tala orð og hverfa þegar að skyldi gætt eða hlé fékkst á önnum. Jái, ömmur mæðra þeirra er nú lifa kváðust hafa setið yfir huldufólkskonum á fæðingatímum þeirra, enda látið mjólk á hvorju kvöldi í könnur sem ósýnilega kæmu þá í vissan stað og hvarf svo jafnótt. En auk annars hamingjuauka sem þessi viðkynning átti að valda þurfi þessar búkonur ekki í snjóbyljum að hafa meir fyrir að ná kúneytum þegar kýr þeirra riðu en leiða þær út í fjúkið, en vanatímatali þar frá ól [kýrin] kálf rófulausan. Þetta huldufólk átti líka oft að hafa gefið svöngum mat sem varð [að] etast upp; en væri nokkru leift eða maturinn ekki þáður átti það að valda ófarsæld. Eins og þá síra Einar í Eydölum hafi verið drengur, kvaðst að hann hafi viljað fara með vinnu[manni] þar sem hvorfið hafi á hvorjum jólum og hafi þeir farið þangað sem fyrir þeim var hóll eða þeim sýndist bær hvar allt var ásjálegt og þar tveir kvenmenn, önnur samt aldurlegri, og hjá henni átti vinnumaðurinn að hafa háttað, en drengurinn vildi ekki sænga hjá hinni. Þá áttu þær að hafa reiðzt, en af vináttu vinnumanns við eldri konuna mátti dren[gur] velja um tvenn hamingjuókjör: búólán eða barnaólán, en hann átti heldur að hafa kjörið búólán.

En að upprunafræði þessa fólks hefur ekki verið hægt að fá rök því mjög fáir af alþýðu hafa komizt svo langt í því sem Gyðingar á 17. öld. Sjá: Basth. Judiska sögu.[1]

Marg[ar] sagnagreinir þessu líkar gengu fram að þessum tímum sem innrættust unglingum, so sem krankleikar, limlestingar og gæfutjón þeirra sem ruglað hafi nokkru við kletta og hóla.


  1. Christian Bastholm: Den Jødiske Historie I— III, Kbh. 1777—1782.