Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Enn frá Mjóafjarðarskessunni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Það er í frásögur fært að í Firði í Mjóafirði hafi einu sinni á fyrri tíð borið svo við á jólanótt (aðrir segja það hafi verið nýársnótt) þegar prestur var að messa og kominn upp á stólinn, að tröllskessa ein sem átti hellir í gljúfragili í fjallinu suður af Firði kom á stólsgluggann og krafsaði eða krakaði til prests með loppunni svo hann trylltist og gekk út og sagði um leið:

„Takið úr mér vilið og svilið
því ég ætla í Mjóafjarðargilið.“

En jafnsnart og hann kom út úr kirkjunni greip skessan hann.

Árið eftir fór á sömu leið, að skessan kom á gluggann og seiddi að presti svo hann talaði vitleysu og er þetta sagt úr ræðu hans:

„Hún Guðrún mín fór til Miklabæjar í gær
í búningi sínum
á honum stóra Rauð mínum;
þá kom vindur af austri og vestri
og fleygði henni Guðrúnu minni úr söðlinum í gær
svo hún datt flöt á jörðina;
en það segi ég yður
að eins og hún Guðrún mín var völt í söðlinum í gær
svo er og einnig valt allt veraldarhjólið.“


„Nú fer að líða undir það
að konur sjóða handa bændum sínum
hnytjur og snytjur;
leggja þær upp á diskinn
langlegginn og mjöðmina
og breiða þar út yfir eina góða síðu.
En það segi ég yður
að eins og sú góða síða breiðir sig út yfir fatið,
svo óska ég og einnig
að þessi mín orð
breiði sig út yfir yður.“


„Músin settist upp á altarið
hatteygð og tatteygð,
róulöng og trýnismjó.


Vinnumaður minn!
Er kýrin mín borin?
Hvurt er það griðungur grár eður annað?
Það er griðungur grár!
Hamingjunni sé lof fyrir griðunginn gráa,
sem kominn er á staðinn inn.
Og hér endar pistillinn.
Dragið úr mér langann og svangann,
því eg ætla í Mjóafjarðargilið að ganga.“

Og að svo mæltu gekk hann út og tók skessan hann þegar.

Ekki eru nafngreindir prestar þeir er teknir vóru. En einu sinni kom Fjarðarsmalinn að hellir skessunnar; sá hann þar eld á arni, en ketil yfir, og sat skessan við eldinn og var að éta eitthvað. Smalinn sagði: „Hvað ertu nú að borða?“ Skessan svaraði: „Ég er að éta höfuðkjammann af honum Fúsa presti. En stattú við, strákur.“ Tók þá smalinn til fóta og hljóp hvað sem af tók þar til hann kom heim.

Nú vildu fáir verða til að þjóna Fjarðarkirkju; þótti mönnum það í opinn dauðann að ganga; þó kom þar prestur sá er Eiríkur hét og var Sölvason.[1] Þjónaði hann þar um hríð og er leið að jólum ráðfærði hann sig við sveitarfólk sitt. Sagði þá prestur að ef skessan kæmi og þeir heyrðu sig tala nokkurt vitleysuorð skyldu sex menn hlaupa á kirkjuhurðina, en aðrir sex menn halda sér og þriðju sex hringja klukkunum; tilnefndi prestur hverjir skyldu vera í hverjum flokk. Nú kemur jólanóttin og þegar séra Eiríkur var kominn upp á stólinn kemur skessan og sezt úti fyrir gluggann; hlaupa þá hverjir til síns starfa eftir því er prestur hafði fyrir sagt áður. En er skessan heyrði klukknahljóðið stökk hún af kirkjuveggnum og á garðinn og til hellis síns; bar ekki á henni framar svo getið sé. En þegar hún stökk á garðinn sprakk stykki úr veggnum undan fæti hennar; sagði kerling þá: „Stattu aldrei,“ og hefur það svo jafnan verið að það stykki hefur fallið fremur en annað af garðinum. Skór hennar annar varð eftir á garðinum; segja sumir hann hafi verið úr járni, en aðrir að hann hafi verið riðinn úr tágum; átti hann að hafa verið brúkaður lengi fyrir ekitrog í Firði. Endir.

Því mætti bæta við í söguna um Mjóafjarðarskessuna að skammt frá gilinu þar sem hún bjó er steinn sem heitir Skrúðasteinn, því þar fundust messuklæðin af prestunum.


  1. Séra Eiríkur Sölvason vígðist til Mjóafjarðarþinga 1698, en dó 1731; samanber ágrip af annál hans. [Hdr.]