Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Erlendur á Þverá

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Erlendur á Þverá

Á Þverá í Reykjahverfi bar það til að drengur sem Erlendur hét, hér um bil fjögra til fimm vetra, hvarf á burtu og vantaði hann í fimm til sex dægur; þá kom hann aftur; og er hann var eftir spurður hvar hann hefði verið sagði hann: „Ég gekk fyrst að heiman á eftir kvenmanni sem mér sýndist vera móðir mín, og þó ég kallaði til hennar vildi hún aldrei standa við og svo gekk hún undan og ég á eftir þar til við komum vestur að Álfhól – hann er á Hvammsheiði – þá beið hún mín og þá þekkti ég að þar var ekki móðir mín. Tók hún mig þá og bar mig inn í hólinn. Þar var ein kona fyrir. Tók ég þá að gráta og bera mig illa. En þær vóru mér blíðar og leituðust við að hugga mig, einkum sú sem fyrir var í hólnum, en ég vildi ekki huggast. Þær buðu mér án afláts að matast, en ég þáði aldrei neitt að éta. En þegar ég hafði verið þessi dægur hjá þeim matarlaus og grátinn vildi sú sem mér var betri sleppa mér, og er hin sá að ég var óhuggandi lét hún til leiðast að sleppa mér og fylgdi mér síðan út, en hin bað mig vel fara og kyssti mig að skilnaði. En er hin var komin út með mig sló hún mig kinnhest og sagði mér svo að fara fyrst mér þækti það betra.“ Var þá farið að skoða kinnina sem hún sló hann á, og sást þá dökkblár flekkur á henni og þann flekk bar Erlendur síðan meðan hann lifði.