Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Faxi

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Faxi

Það er sagt að í fornöld hafi Suðurnesjamenn mjög tíðkað fuglaveiðar í Geirfuglaskerjum, en þangað verður ekki farið nema í stilltasta veðri á sumardag því svo er illt við í skerinu. Þar er sjaldan eða aldrei dauður sjór.

Einu sinni er þangað var farið bar svo við að einn af skipverjum komst ei upp í skipið er það lagði frá skerinu og varð svo eftir út í því. Skipverjar þóttust þar mundu hafa séð hans síðasta, en gátu ei að gjört sökum brims og héldu svo til lands. Líður nú þangað til sumarið eftir. Þá kom skip út í skerið. Kemur þá maðurinn niður að skipinu og var hinn kátasti. Skipverjar urðu mjög hissa er þeir fundu hann og spurðu hvar hann hefði verið um veturinn og hvernig honum hefði liðið. Hann sagðist hafa verið þar í góðu gengi á bæ einum og hefði þar ekki verið manna annað en ein stúlka. Sagði hann að hún hefði sagt að hún gengi með barni hans og mundi hún senda honum það ef það fæddist lifandi. Skyldi hann þá láta skíra barnið því ella mundi hann illt hafa af fundi þeirra. Skipverjar fóru nú í land með manninn og þótti öllum undur að hann var ei dauður.

Maður þessi átti kirkjusókn að Hvalsnesi. Svo bar við nokkru síðar að þá er enduð var messa stóð barnsvagga fyrir utan kirkjudyrnar og vissi engi hvernig á henni stóð. Barn lá í vöggunni og voru öll vögguklæði mjög vönduð. Þetta sáu allir sem út gengu úr kirkjunni. Þegar prestur kom þar að spyr hann hvert nokkur biðji sig að skíra barn þetta, en engi tók undir. Hvarf þá vaggan, en dúki einum var snarað til prestsins frá vöggunni. Dúkurinn þótti svo fagur og vandaður að hann var hafður þar fyrir altarisklæði og þótti það sóma sér vel. En er maðurinn sem áður sat í skerinu var kominn heim frá kirkjunni varð hann óður og steypti sér í sjóinn. Varð hann þá að hrosshveli og kölluðu menn hann Faxa. Af honum dregur Faxaflói nafn því þar var hann lengi og þótti mjög skæður róðrarmönnum. Lá hann fyrir skipum og grandaði; hlutu margir tjón af því. Einu sinni gleypti eða braut Faxi bát sem á voru tveir bræður ungir og efnilegir. Faðir þeirra kunni margt og réði hann það af að hann fór einn á bát og réri út á flóann þangað sem Faxi lá. Rak hann þá Faxa norður yfir fjörðinn og upp á þurrt land og svo norður í vatn það er síðan heitir Hvalvatn. Þar skildi með þeim og hefur engi orðið var við Faxa síðan, en einhvern tíma fundust hvalbein við vatnið.