Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Fjósamaðurinn í Forsæludal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Fjósamaðurinn í Forsæludal

Svo bar einu sinni við að fjósamaður í Forsæludal fram af Vatnsdal finnur einu sinni þegar hann kemur í fjósið kú standanda á flórnum. Fer hann nú að grennslast eftir hver kýrin hafi losnað í fjósinu, en sem hann finnur þær allar á básum bundnar sem hann átti von á, þykist hann vita að þessi sé aðkomin og vill reka hana út, en hún er bágræk. Verður honum þá skapbrátt, blótar mjög og lemur kúna af öllu afli með knefum og kemur henni þannig loksins út, en sem hún er út komin bregður baula á leik og hleypur að hóli einum sem þar var ekki alllangt frá og hverfur inn í hann. Næstu nótt eftir kemur til þessa fjósamanns kona mikil og illúðlig og átelur hann mjög fyrir það hve illmannlega hann hafi farið með kú sína og segir að skilnaði: „Til lítilla launa fyrir meðferð þína á baulu minni skulu hendur þínar héðan í frá verða eins og þær vóru meðan þú barðir hana.“ Að svo mæltu hvarf honum konan, en hann vaknaði litlu síðar og vóru þá hendur hans báðar krepptar í knefa og réttust aldrei meðan hann lifði. En þær vóru áður hann sofnaði eðlilega réttar, en eftir þetta mátti hann þeim til einkis taka.