Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Fjölskylda Grýlu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Fjölskylda Grýlu

Þess var þegar getið að bóndi Grýlu hét Leppalúði; hann var að öllu samboðinn henni í háttum sínum, en ekki fullt eins skrímslislegur ef til vill. Þau áttu saman tuttugu börn sem þulan segir:

Grýla var að sönnu
gömul herkerling,
bæði á hún bónda
og börn tuttugu.
Eitt heitir Skreppur,
annað Leppur,
þriðji Þröstur,
Þrándur hinn fjórði,
Böðvar og Brynki,
Bolli og Hnúta,
Koppur og Kyppa,
Strokkur og Strympa,
Dallur og Dáni,
Sleggja og Sláni,
Djangi og Skotta.
Ól hún í elli
eina tvíbura,
Sighvat og Syrpu,
og sofnuðu bæði.

Þau Grýla og Leppalúði áttu og fleiri börn en þau sem hér eru talin í þulunni; það voru piltar þeir sem venjulega hafa verið kallaðir jólasveinar. En þótt þeir séu fortakslaust kallaðir synir Grýlu og Leppalúða í Grýlukvæði því sem prentað er í Snót er það sumra manna mál að Grýla hafi átt þá áður en hún giftist Leppalúða, og greinir þó ekki frá faðerni þeirra.

Jólasveinar heita svo eiginlegum nöfnum: 1. Stekkjarstaur, 2. Giljagaur, 3. Stúfur, 4. Þvörusleikir, 5. Pottasleikir, 6. Askasleikir, 7. Faldafeykir, 8. Skyrgámur, 9. Bjúgnakrækir, 10. Gluggagægir, 11. Gáttaþefur, 12. Ketkrókur og 13. Kertasníkir. En því eru þeir þrettán að tölu að hinn fyrsti kemur þrettán dögum fyrir jól, síðan einn á hverjum degi og sá síðasti á aðfangadag jóla. Á jóladaginn fer hinn fyrsti burt aftur og svo hver að öðrum, en hinn síðasti á þrettánda dag jóla. Jólasveinar hafa verið eins og foreldrarnir hafðir til að hræða börn með, en einkum um jólaleytið. Áttu þeir þá að koma af fjöllum ofan til mannabyggða til að fremja þá iðn er hver þeirra tamdi sér og flest nöfn þeirra eru við kennd, en allir voru þeir eins vísir til að taka börn þau er hrinu mjög eða voru á annan hátt óstýrilát.

Þó það virðist eftir áðursögðu engum efa bundið að jólasveinar hafi verið þrettán að tölu hefur þó ekki öllum borið saman um það atriði heldur en um faðerni þeirra; segja sumir að þeir hafi ekki verið fleiri en níu og bera fyrir sig þulu þessa:

„Jólasveinarnir einn og átta
ofan komu af fjöllunum.
Í fyrrakvöld þá fór ég að hátta
þeir fundu hann Jón á Völlunum.
En Andrés stóð þar utan gátta,
þeir ætluðu að færa hann tröllunum.
En hann beiddist af þeim sátta,
óhýrustu körlunum,
og þá var hringt öllum jólabjöllunum.“

Auk tuttugu hinna fyrrtöldu barna og jólasveina segir ein þula enn að hún eigi nítján til; þulan er þannig:

Grýla kallar á börnin sín
þegar hún fer að sjóða til jóla:
„Komið hingað öll til mín,
Nípa, Típa,
Næja,[1] Tæja,
Nútur, Pútur,[2]
Nafar, Tafar,
Láni, Gráni,[3]
Leppur, Skreppur
Loki, Poki,
Leppatuska, Lán[g]leggur
og Leiðindaskjóða,
Völustallur og Bóla.“
  1. Aðrir: Læja.
  2. Aðrir: Kútur.
  3. Aðrir: Sláni.