Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Fjalgerður

Úr Wikiheimild

Það var á bæ þeim sem Kleif heitir austur í Fljótsdal að fólk fór til kirkju á jólanótt, en ein stúlka var heima sem átti að gæta bæjarins. Þegar fólkið var farið fyrir tímakorni á stað, við það að vera komið til kirkjunnar, sér stúlkan að framan úr dalsbotninum kemur mikill fjöldi fólks ríðandi, en bær þessi var fremstur bæja í dalnum, svo þaðan vóru öngvar mannavonir því land þetta lá til öræfa, sem fólkið kom að úr. Ríður svo fólk þetta með mikilli fart og stefnir heim að bænum. Stúlka stendur úti og horfir á þetta og þykir undarlegt; svo ríður þetta og heim. Hún sér að á undan ríður kona heldur stórmannleg að sjá. Þegar fólk þetta er komið heim stígur konan af baki og heilsar heimastúlku; hún tekur kveðju hennar. Biður konan svo stúlkuna að gefa sér að drekka; stúlkan fer inn og kemur út aftur með mjólk í könnu og réttir konunni. Hún tekur við og drekkur, en um leið réttir hún hendina inn í barm sinn eins og hún sé að taka eitthvað til sem hún ætli að gefa stúlkunni fyrir drukkinn, en stúlkan spyr hana ákaft eftir hvað hún heiti, meðan hún er að drekka þangað til hún er búin. Réttir hún könnuna aftur að stúlkunni og segir alvarleg og lítur framan í hana um leið: „Fjalgerður heiti ég, forvitna mín,“ og stingur því inn aftur sem hún var að taka til handa henni og sýndist stúlku eins og hún sjá á eitthvað rautt út úr barmi konunnar. Stígur svo konan á bak aftur, því hitt sat allt á hestbökum á meðan á þessu stóð, og reið svo fólk þetta út eftir dalnum og vissi hún ekkert um það meira og enginn. Og endar svo þessi tilburður.