Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Flagðkonan í Selárdal

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Flagðkonan í Selárdal

Í Selárdal var eitt sinn prestur sem missti smalamenn sína tvo eður þrjá með þeim atvikum að þeir hvurfu á jóladagsnóttina eitt árið eftir annað. Hann grunaði að meinvættur mundi á liggja og valda manntjóninu, og er komu hin fjórðu jólin bjóst hann sjálfur til að fylgja sauðum aðfangadaginn og vera í smalakofanum við sjóinn um nóttina, því smalamenn hvíldu þar. Þá myrkt var orðið lykur hann aftur kofanum og leggst í fletið, en sofnar ekki, og er leið til miðrar nætur heyrir hann úti stigið þungt og brátt er upp hrundið hurðu og bófrað inn í kofann. Er það flagðkona ekki lítil sem inn kemur og þreifar hún fyrir sér um kofann eftir fletinu og finnur þar fætur hans og þuklar og mælir um leið: „Er í skinnsokkum brokkur, hefur jólaskó dóli.“ Hann hafði exi litla í hendi bitureggjaða og höggur til flagðkonunnar með henni, og bregður henni svo við lagið að hún snarast burt og út úr kofanum. Sækir hann þá út eftir henni, hún flýr til sjávar og út með fjörunni svo hann nær henni ekki. Sér hann hún muni ætla norður fyrir Kópinn, fer hann þá upp á fjallið og niður Skandadal og kemst þar í dalverpið og svo ofan; er hann þá kominn undan henni. Fer hann niður á klettsnös nokkra lága og bíður þar. Kemur þá flagðkonan og sér hann á klettinum; vill hún ná til hans og klifrar upp svo lengi að hún nær til fóta hans. Höggur hann þá á krumlur henni og við það hrataði hún niður fyrir klettinn og kom niður á sker þau sem þar undir eru og sem síðan heita Byltusker. Og á skeri því rotaðist hún til dauðs.