Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Flagðkonur við Þjórsá

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Flagðkonur við Þjórsá

Í suðurenda Búrfells austan við Þjórsárdal er gil stórt eða gróf sem oftast er kölluð Stórkonugróf. Það er sagt að í fornöld hafi þar búið skessa, en engar greinilegar sagnir eru um hana og ekki er þess getið að hún hafi gjört illt af sér. Systir hennar bjó fyrir austan Þjórsá, ekki er getið hvar helzt, en þó nálægt á móts við Búrfell, því sagt er að menn hafi stundum heyrt þær systur kallast á. Sú er t. a. m. ein sögn þar um að Gissur bóndi frá Lækjarbotnum á Landi fór í skóg upp að Þjórsá nálægt Búrfelli. Hann heyrði að kallað var fyrir austan ána: „Ljáðu mér ketil, systir, að sjóða í mann.“ Þá er sagt í Búrfelli: „Hvur er hann?“ Því var svarað fyrir austan: „Gissur á Botnum, Gissur á Lækjarbotnum.“ Þá var sagt að hún mætti sækja ketilinn. Gissur tekur tvo sína beztu hesta, rekur annan, en ríður hinum og heldur suður á Land og fer svo hart sem hestarnir geta farið. Þegar hann var búinn að ríða nokkra stund féll hestur hans niður undir honum af þreytu og mæði, og tekur hann þá hinn hestinn og í því sér hann hvar skessa kemur á eftir honum og stiklar stórum. Hann keyrir þá hestinn og ríður í fleng þar til hann kom að Skarði á Landi. Þótti það furða hvað fljótur hann hafði verið svo langa leið, en þó hafði skessan dregið hann svo uppi að þegar hann kom á Skarðshlað var hún við túnjaðar þar. Gissur hljóp þá í kirkju og hringdi, en þegar skessan heyrði klukknahljóðið snéri hún aftur, en sumir segja hún hafi sokkið í jörð. Svo lýkur þessari sögn og fleiri eru naumast til um þessar flagðkonur.

Nú er það ætlan vitra manna að aldrei hafi tröllkona Búið í Þjórsárdal eða Búrfelli, önnur en Þuríður sem Steinólfur í Þjórsárdal átti og Þjórsdælir vildu grýta í hel fyrir „fjölkynngi og tröllskap“, og hafi þær sagnir myndazt út af henni sem til kunna hafa verið um skessuna í Stórkonugróf. Nokkuð var það: Austan eða norðaustan kom Þuríði hjálpin, þó það væri bróðir hennar, en ekki systir. Enginn hellir er í eða hjá Stórkonugróf og engin merki til að þar hafi nokkurn tíma verið bygging, enda segja vitrir menn að hið rétta nafn grófarinnar sé Skipgróf, því þar hafi Hjalti Skeggjason látið smíða skipið sem hann lét gjöra „heima í Þjórsárdal“ og flutti ofan Rangá. Þetta mun meðfram vera byggt á því að þaðan er skemmst tildráttar að Rangá og þar á móts við eða litlu sunnar heita Kjaldragatungur þar sem skipið var sett yfir að Rangá.