Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Fossvallabóndinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í fyrri daga bjó bóndi einn á Fossvöllum[1] á Langanesi. Sá bær stóð nokkrum spöl fyrir innan Sauðanes, en er nú eyðijörð. Þessi bóndi átti mörg börn ung, en eina dóttir átti hann sem elzt var af börnum hans. Var hún látin reka kvíféð á kvöldin út undir Fossána; hún fellur ofan af heiðinni skammt fyrir utan bæinn. Stúlkan kvartaði yfir því við föður sinn seint um sumarið að hún væri elt af bergrisa í tvö kvöld samfelld og biður hún föður sinn grátandi að láta sig ei reka féð þriðja kvöldið. Hann verður reiður við stúlkuna og segir hún gjöri þetta til þess að þurfa ei að reka féð. „Skaltu,“ segir hann, „engu að síður reka féð í kvöld.“ Verður það að vera svo að [hún] reki féð um kvöldið. Líður svo að náttmáli að stúlkan kemur ei. Fer nú bóndi margt að hugsa að dóttir sín hafi sagt satt, fer því af stað allt út að Fossá, en sér hvergi stúlkuna og snýr við svo búið heim aftur frá sér numinn af sorg og söknuði. Og um morguninn snemma ríður hann að Sauðanesi til prestsins sem þar var og tjáir honum allan þenna atburð. Prestur segist ei geta náð henni frá þeim tröllum sem hún sé nú heilluð til – „og hljótum við að senda skjótast mann norður að Múla í Aðalreykjadal til prestsins þar sem er bróðir minn;[2] mun honum takast að ná dóttur þinni.“ Síðan skrifar hann bréf með sendimanninum til bróður síns. Kemur hann að Múla til prestsins þar og fær honum bréfið og kveðju Sauðanessprests með. Hinn les bréfið og mælti: „Þetta eru ill tíðindi því bóndadóttir er hjá þeim verstu tröllum hér norðanlands og þótt víðar sé leitað, og verðum við ei komnir áður þrjár sólir eru af himni að Sauðanesi munu óvættir þessir verða búnir að trylla hana svo magnlega að ei mun hægt aðgjörða.“ Síðan býst prestur í skyndi með sendimanni. Ríða þeir nótt sem dag og fá jafnan ólúna hesta þar sem þeirra gáfust upp. Samt komust þeir ei að Sauðanesi fyrr en að þrem dögum liðnum, og kvað þá Múlaprestur það of seint orðið. Þó fóru þeir að þrábeiðni bónda með honum út að Fossánni báðir prestarnir og að þeim fossi sem er í ánni. Múlaprestur tekur síðan upp hjá sér sprota og slær á bergið. Opnast þar stórar hellisdyr og særir prestur þann sem þar ráði fyrir að koma í augsýn, og jafnsnart kemur til dyra ógurlegur tröllkall. Prestur spyr hvort hann hafi stolið bóndadóttir. Hinn kvað það satt vera. „Lát oss sjá hana!“ segir prestur og létu þá tröllin hana fram í hellisdyrnar með járnfesti um sig miðja. Þykir prestum hún orðin óttaleg ásýndum, stór sem tröll og blá sem hel. Sást ei önnur mannsmynd á henni nema skírnarkrossinn á enni hennar var hvítur og með náttúrlegum holdslit. Og sem hún sér nú föður sinn biður hún tröllin að lofa sér að drepa hann því honum sé öll sín ógæfa að kenna. En Múlaprestur skipar henni að fara inn í hellirinn og láta engan mennskan mann sjá sig framar. Þar næst mælti hann við bergrisann: „Eru mörg tröll í helli þínum og á hverju lifa þau?“ Risinn mælti: „Við erum fimm og lifum á fiskivatni sem er inn í helli vorum.“ Síðan særir prestur risann að fara inn. Laukst á eftir honum hell[ir]inn og gekk prestur frá dyrunum. Er það og fróðra manna sögn að rauðir rúnastafir sjáist enn á berginu þar sem hellisdyrnar vóru. En sem bóndinn sá alla[n] þenna atburð varð hann frá sér numinn af sorg og lifði skamma stund. Var eftir þetta hætt að búa á Fossvöllum og hefur þar aldrei byggð verið síðan.


  1. Fossvellir munu hafa verið í Fossdal utan við Gunnólfsvíkurfjall. [Sigurður Gunnarsson.]
  2. Séra Árni Skaftason var prestur á Sauðanesi 1717-1770, en Þorleifur bróðir hans í Múla 1724-1748.