Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Grímstjörn

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Grímstjörn

Fyrir austan er tjörn sú er Grímstjörn heitir, en sú er saga þar til: Einu sinni voru bræður tveir að leika sér í kringum tjörnina. Sáu þeir þá gráan hest á tjarnarbakkanum. Ætluðu þeir þá báðir á bak hestinum að gamni sér, en er annar drengurinn er Grímur hét var kominn á bak varð hinum drengnum litið á hófana, varð bilt við og bað Guð að hjálpa sér. Við það brá hestinum svo að hann stökk með Grím í vatnið. Heitir það síðan Grímstjörn.

Öðru sinni voru börn að leika sér við sömu tjörn. Sáu þau þá gylltan kamb fljóta í vatninu. Eitt barnið fór að teygja sig í kambinn, en er það náði í hann varð höndin á því föst við hann og dró hann það ofan í vatnið.