Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Gróa á Hrófá

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gróa á Hrófá

Skömmu fyrir aldamótin var kelling á Hrófá sem Gró hét, mikil vexti og var því kölluð Stóra-Gróa. Hún hafði alizt upp suður í Breiðafjarðardölum. Hún sagðist hafa verið send eftir hestum einn kvöldtíma þá hún var unglingur, í tunglskini, en hún átti að sækja hestana fram á dal sem þar lá fram frá bænum sem hún var á. Hún fann hestana sem hún átti að sækja og hélt svo heimleiðis, en þegar hún kom að hól nokkrum sem þar var í dalnum sá hún hólinn opinn og sýndist hann vera að sjá innan líkastan kotbæ. Þar voru göng á móti dyrum og pallskák, en undir skákinni var vefstaður og kall sat við vefinn og var að vefa; hann var ófrýnilegur útlits í mórauðri peysu og svörtum stuttbuxum með stóran barðahatt á höfði sem náði ofan á nef, skeggið var kolsvart, kjafturinn náði út undir eyru og tönnurnar voru gular. Á pallinum sat kelling; hún var í sortuðum hempugarmi með skuplu svonefnda á hausnum. Stelpa var þar hjá henni og hafði líkan búning og kellingin, en mikið var hún útlitsbetri en kallinn og kellingin, því það lýsti sér á svip þeirra að þau mundu vera hjón því bæði voru þau illileg og grettin í ásýnd, en stúlkan hafði það yfirlit sem hún væri mennsk og hefði verið heilluð. Kerling var að spinna gráan lopa, en stelpan að tæja ull. Því lengur sem Gróa horfði inn í hólinn, því grimmlegri varð kallinn og kelling hans, en stelpan stóð í stað. Þegar þessu hafði svo farið fram um stund sá Gróa að kallinn seildist upp á pallskörina og tók ofan stóra skálm mjög biturlega og stendur upp frá vefnum og ætlar að ganga út mjög snögglega, en Gróa varð dauðhrædd og ætlaði á bak á hest sinn og komst það naumlega fyrir hræðslu. En í því bili heyrði hún dynk og leit við. Kalltetrið hafði þá dottið um þrepskjöldinn þá hann ætlaði út, en Gróa keyrði upp á klárinn og setti hann á skeið, reið heim frá hestunum, sleppti reiðskjóta sínum á hlaðinu og tók ekki af honum beizlið, komst naumlega inn í bæinn og mátti ekki sjá ljós þá nótt alla út, svona var hún orðin hrædd og umturnuð af sjón þessari.