Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Grýla

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Grýla

Þó nú gangi ekki lengur nein munnmæli um Grýlu að teljandi sé verður allt um það að geta hennar að því sem finnst um hana í fornum ritum og þulum og manns hennar Leppalúða, því á fyrri öldum hafa farið miklar sögur af þeim, en einkum henni, svo að löng kvæði hafa verið um þau kveðin og mörg um Grýlu. Þau áttu bæði hjónin að vera tröll enda er Grýla talin í tröllkvennaheiturn í Snorra-Eddu. Mannætur voru þau og sem önnur tröll og sóttust einkum eftir börnum þó einnig þægju þau fullvaxna menn. En eftir að farið var að hætta að hræða börn í uppvextinum með ýmsu móti hefur Grýlutrúin lagzt mjög fyrir óðal því Grýla var mest höfð til að fæla börn með henni frá ógangi og ærslum og því er orðið grýla þegar í Sturlungu haft um tröllkonu eður óvætt sem öðrum stendur ógn af og grýlur um ógnanir.

Snemma hefur Grýla verið gjörð ógurleg því Sturlunga getur þess að hún hafi fimmtán hala; hið sama stendur og um hana í þulunni:

„Grýla reið fyrir ofan garð,
hafði hala fimmtán,
en á hverjum hala hundrað belgi,
en í hverjum belgi börn tuttugu.“

Og enn segir önnur þula svo:

„Grýla reið með garði,
gekk með henni Varði;
hófar voru á henni,
hengu toppar úr enni.
Dró hún [aðrir: bar hún] belg með læri,
börn trúi eg þar í væri.
Valka litla kom þar út,
krukkaði á gat með skæri;
leysti hnút og hleypti öllum börnunum út.
Svo trúi eg [aðrir: frá eg] það væri og færi.“

Þá hafa Grýlukvæðin ekki heldur fegrað hana þar sem þau segja að hún hafi ótal (300) hausa og þrenn augu í hverju höfði sem hún taki börn með og stingi þau Leppalúði þeim í stóran poka eða „gráan belg“; og enn segir þar að hún hafi kartnögl á hverjum fingri, helblá augu í hnakkanum og horn sem geit, eyrun lafi ofan á axlir og séu áföst við nefið að framan. Hún var og skeggjuð um hökuna og fór skeggið ekki betur en hnýtt garn á vef og hékk þar við bót eða flóki, en tennurnar voru sem grjót ofnbrunnið[1]. Fleira þykir ekki þörf að tína til að sinni um skapnað Grýlu þar sem kvæðin sjálf sem vonandi er að verði bráðum prentuð lýsa því langbezt.

  1. Þessi lýsing Grýlu er mestmegnis tekin eftir Grýlukvæði séra Guðmundar Erlendssonar í Felli; en Grýlukvæðið sem prentað er í Snót, Khöfn 1850, 206. - 215. bls., lýsir henni þó enn ófreskjulegar og læt ég mér nægja að vitna til þess.