Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Guðlaugur á Hurðarbaki

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Guðlaugur á Hurðarbaki

Ólafur hét maður; hann bjó í Botni í Botnsdal í Borgarfjarðarsýslu. Hann átti son sem Guðlaugur hét; þegar hann komst upp bjó hann á Hurðarbaki í Kjós og þótti góður bóndi. Þegar hann var barn hafði móðir hans þann sið að hún bar barnsvögguna út í tún um sumarið þegar hún var að raka. Einu sinni sér hitt fólkið sem á túninu var að tvær konur eru komnar að vöggunni og var önnur þeirra að virða Guðlaug litla fyrir sér þar sem hann lá, en hún sat á fótum sínum og var að hnoða böggul nokkurn sem var lítið stærri tilsýndar en Guðlaugur var þá orðinn. Fólkinu varð mjög bilt við þetta, kallar til móður hans og segir: „Líttu’ á.“ Í því stökkva báðar konurnar burtu og voru horfnar sýnum áður en móðir Guðlaugs kom að vöggunni. Einleikið mál var um það að þetta mundu hafa verið álfkonur sem hefðu ætlað að skipta um börn. En ekkert varð Guðlaugi meint við komu þeirra af því nógu snemma var að gætt.