Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Guðmundur á Aðalbóli

Úr Wikiheimild

Guðmundur hét maður er fyrstur byggði að nýju Aðalból í Hrafnkelsdal. Fyrsta morguninn sem hann var í dalnum leit hann út úr tjaldinu og sér að huldumaður er að vigta við hné sér hvern bagga sem þeir komu með kvöldið áður. Guðmundur sagðist hafa þekkt hann áður og kvað hann hafa búið árinu áður í svonefndu Votabergi í fjallinu út og upp af Kleif í Fljótsdal. Eina nótt um vorið á sauðburði dreymir Guðmund að þessi sami maður koma til sín og biðja sig um mórautt hrútlamb er hann átti. Guðmundur lofar honum lambinu, en kveðst ei vita hvar hann eigi heima. Huldumaðurinn segir honum að binda lambið við stóran viðarrunna sem hann til tekur að sé þar í nesinu. Bóndi gjörir þetta daginn eftir. Næstu nótt dreymir hann enn sama manninn og þakkar [hann] honum fyrir lambið og kveðst litlu geta launað nema það að hann skuli ekki þurfa að smala ánum í sumar. Enda lét bóndi reka ærnar á degi hverjum, en á kvöldin komu þær með tölu heim á túnið allt sumarið.