Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Guðmundur á Eyvindarmúla

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Guðmundur á Eyvindarmúla

Það var eitthvort sinn Þá hann var ungur að hann var sendur til sauða upp til fjalls, en skelldi yfir níðaþoku svo hann vissi ekki hvað hann fór. Og þá hann var lengi búinn að gánga heyrði hann að kallað var og sagt: „Tökum við hann.“ Þá kom rödd úr annari átt sem sagði: „Tökum við hann ekki.“ En rétt í því sama kom kall faðir hans; hafði farið að leita að honum og átaldi hann harðlega fyrir fíflskuna að hafa sig ekki heim þá þokunni fleygði yfir. Þegar hann var fullorðinn var það eitthvört sinn að hann ásamt fleirum reið á fjall í sauðaleit, og urðu dagþrota og bjuggu því um sig við klett einn í reiðfærum sínum. Höfðu aðrir höfðalag við klettinn, en hinir frá, og snéru fótum saman. Guðmundur var frá klettinum og hafði hnakk sinn undir höfði. Þeir sofnuðu strax nema Guðmundur. Hann gat ekki sofnað. Þegar stund var liðin frá því hinir sofnuðu, var[ð] hann [var] við að eitthvað kom að höfðalagi hans og stóð þar við eins og væri að hlera hvort þeir svæfi, en því næst vissi hann ei fyrr til en tekið var með þreklegum höndum á höfði [hans] og hrist til hægt og svo sleppt takinu. Hann lét ekkert á sér bera; svo leið lítil stund, þá var eins gjört, hrist höfuðið til og um leið kippt í svo hálsinn varð í reiðfærinu þar sem hnakkinn var áður. Í þriðja sinni eftir stundarkorn var tekið í höfuð hans og honum kippt svo að knésbæturnar lentu í hnakknum. Þá kallaði hann svo hinir vöknuðu, spruttu á fætur og sáu kvikindi í kvenmynd, ekki fjarska hávaxið en digurt mjög. Það var í skinnstakki skósíðum í fyrir en stuttum á baki. Þegar þeir hlupu á fætur tók þetta til fóta með mikilli ferð og hélt til jökla, þeir á eftir langan veg. Bar svo ekki meira á þessu.

Þegar Guðmundur var hniginn á efra aldur bar það við eitt sinn á Eyvindarmúla um vortíma í ófæru snjóbleytuveðri, og allir inni, að einhvör gekk fram; þá stóð innan við hurðina annars vegar svo stórvaxin skepna í kallmynd að það varð að vera hálfbogið undir loftið, voru þó portdyr á Eyvindarmúla. Þetta var í lörfum sem rann úr. Guðmundi var sagt frá þessu. Hann sagði að setja byðu fulla af mat fram í dyrnar og hafa engan umgang né hnýsni um þetta. Um morguninn var birt upp og komið gott veður, þetta burt úr bæjardyrunum og byðan tóm. Héldu menn að Guðmundur mundi í kynni við þessi kvikendi.

Guðmundur svaf vanalega í skála. Einu sinni bar það við að þá er hann var lagztur fyrir og allir sofnaðir sem sváfu í skálanum, en hann vakti, að hann heyrði að eitthvað fór hægt um dyrnar og inn eftir og á augabragði vatt sér upp fyrir hann í rúmið, honum virtist í kvenmynd, en honum varð svo hverft við að hann fleygði sér fram úr rúminu og þetta á eftir fram um dyr og hann á eftir og út á hlað, þetta á undan og hvarf honum ofan fyrir kirkjuna, en áður það hvarf leit það til hans. Sagði hann svo frá að þau augu væru sér æ í minni hve illileg þau voru, og aldrei hefði sig gripið önnur eins hræðsla og þá þetta fleygðist upp fyrir hann í rúmið.