Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Guðný á Végeirsstöðum

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á Végeirsstöðum í Fnjóskadal bjuggu hjón; konan hét Þorgerður og var stór í skapi. Þau tóku til uppfósturs stúlkubarn er Guðný hét, og leið og beið þar til hún var tíu ára gömul. Þá var það eitt sinn eftir fráfærur að fóstra hennar bað hana að raka kvíarnar og fekk henni klóru og fór hún svo til þess upp á kvíarnar. Þær vóru [í] hárri brekku fyrir ofan bæinn en sáust þó ekki, en skammt frá þeim er kletta- eða klappaband. Kellingu fer að leiðast eftir stúlkunni og fer upp eftir og sér hún þá stúlkuna hvergi, en klóran liggur í miðjum kvíum því þangað var hún búin að raka þær. Hún fer að hrópa og kalla og það tjáir ekki, og fer heim og skipar að safna mönnum í kring og hefja leitina og er leitað, þó til einkis, þennan dag, en svo var ákveðið að leita upp á heiði daginn eftir og um morguninn var strax farið að leita, en um daginn í sama mund og Guðný hvarf þá kom hún inn til kellingar og er með hljóðum og stunum og segist ekki þola við í öxlinni. Kelling spyr hana hvar hún hafi verið. Hún segir þegar hún hafi verið farin að moka kvíarnar hafi stór og hræðilegur kall komið og heimtað hana með sér, en hún hafi ekki viljað fara; þá hafi hann tekið sig og bar hana upp að fyrnefndum klöppum og inn í þær og þó hún ærðist í höndunum á honum þá mýkti það hann ekki. Hún sá þar ekkert inni nema kellingu eina ljóta og hann, en þegar kall sá að ekki varð við hana fengizt fyrir orgi og ólátum tók hann hana aftur í sama mund og bar hana út og að kvíunum og fleygði henni inn í kvíarnar og kom niður á öxlina og því var henni illt í henni enda varð hún aldrei heil í henni. Nú komu leitarmenn heim og fundu ekkert sem ekki var von. Kelling segir þeim að stúlkan sé komin til, en segist ekki lofa þeim hjúum miklu, þau skulu ekki lengur vera í hennar landareign. Hún fer þá upp að klöppunum með bölvi og ragni í hinum versta ham um kveldið, segir þeim að fara í burtu úr sinni landareign og skulu þau ei lengur þar frið hafa. En eftir að búið var að mjólka um kveldið sást kall og kelling labba upp frá klöppunum með sína pjönkuna hvert og stefndu suður og upp í fjall og varð ei vart við þau síðan. Davíð, núlifandi bóndi á Reykjum, er fjórði maður frá Guðnýju þessari.