Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Gvöndarsteinn og Gvöndarkirkja
Gvöndarsteinn og Gvöndarkirkja
Milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar er fjallvegur sem Staðarskarð heitir. Reyðarfjarðar megin á því eru steinar stórir og þótti þar reimt til forna. Fundust oft menn þeir sem þessa leið fóru annaðhvurt lerkaðir eða dauðir hjá þessum steinum.
Einhvurn tíma þegar Guðmundur biskup Arason, sem kallaður var góði, var á ferð um Austfirði fór hann þennan veg. Messaði hann hjá fyrrnefndum steinum og dreifði vígðu vatni þar allt um kring og sagði þar mundi öllum óhætt að fara, og hefur það orðið að sannindum, að þar hefur engan mann sakað síðan; og endar svo þessa frásögu. – Að norðanverðu við Reyðarfjörð er tangi einn sem kallaður er Gvöndarkirkja, og er sagt að Guðmundur biskup hafi þar sungið messu í tjaldi sínu. Þar hjá er brunnur sem líka er kenndur við Guðmund af því að hann var vígður af honum; og þótti þar vera hið mesta heilsubótarvatn um langan aldur; og lýkur hér með þessari frásögu. – Endir.