Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hættir huldufólks

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hættir huldufólks

Frá uppruna, híbýlum, háttalagi og sammökum þessa álfakyns við menn er svo snoturlega sagt og undireins svo samkvæmt hjátrú þeirri er hér vestra loðir ennþá við meðal gamals fólks að ég leyfi mér að vísa um téð efni til kirkjusögu Finns biskups Jónssonar Per. IV. Sectio II. Cap. 1. § 18.[1] – Þó vil ég bæta þar við nokkrum athugasemdum:

Valdstjórn þess og kirkjusiðir eiga að vera áþekkir því er hér tíðkaðist um næstliðnar aldir, og víða er tilgreint hvar kirkjur þess séu; þykjast menn hafa komið að kirkjudyrum og heyrt grallarasönginn gamla og predikanir því samboðnar.

Kauptorg á það; eitt þeirra er tilgreint að sé hér um sveitir, hamar mikill Snasi nefndur sem liggur í sjó fram á nesi því er liggur milli Berufjarðar og Króksfjarðar í Reykhólasveit. Þó kvað ei vera trútt um að það fari í sölubúðir kaupmanna vorra og hirði þar það er því þykir eigulegt.

Ekki hefi ég heyrt getið með jafnaði annars fénaðar hjá því en hesta og kúa; sérílagi kvað þær vera merkis mjólkurskepnur og eftir því kostgóðar. Hafa þær komið í eigur manna með því að þær hafa við eitthvört tækifæri verið blóðgaðar af mennskum mönnum því þá vill huldufólkið þær ekki.

Gjarnt er það á að taka ungbörn óskírð, en láta í staðinn afgamlar kallhrotur í ungbarnslíki er nefnast umskipt[ingar]. Þess vegna má aldrei yfirgefa börnin og allra sízt nema krossuð. En til að fá komið huldufólki til að skipta um aftur er eina ráðið að flengja barnið vægðarlaust. Þar hjá er því títt að heilla unglinga. Elta þeir það og sýnist það vera mæður sínar eða fóstrur, inn í hamra, upp á fjöll og svo framv., og finnast þeir þar hálftruflaðir. Eru þessa mörg dæmi.

Ekki eru heldur færri sögur af því að álfakonur hafi sézt þar og þar eða álfamenn, að strokkhljóð, lyklahringl og fl. hafi heyrzt, ljós hafi sézt o. s. fr. í hömrum og klettum, og þetta á að vera sá óyggjandi sannleiki staðfestur af mörgum sjónar- og heyrnarvitnum að valla er nema til verra eins að hrinda hegóma þessum með skynsamlegum ástæðum. Maður á þá að gjöra svo marga heiðvirða menn og ráðsvinna, forfeður sína og ættingja að lygi- og minni mönnum. Maður á að efast um almætti skaparans og vísdóm, sem, eftir orðatiltæki gömlu klerkanna er þeir höfðu brúkað við þvílík tækifæri, á svo margt í búrinu sínu blessaður. Og þegar nú til jarteikna eru dauðu hlutirnir – sem ljúga ekki – kistlarnir, klútarnir, hringirnir, lyklasylgjurnar, reifalindarnir, kaleikarnir með svarta blettinn í botninum, klæðisfötin grænu og kessufötin rauðu – er hún amma mín sá hjá henni langömmu sinni eða hjá prestkonunni, eða sem hún móður mín heyrði hana ömmu sína segja frá að hún fóstra hennar hefði séð örmulinn eftir af – þá má sá heita með öllu trúarleysingi er neitar slíku.

Þá kvað húsakynnin ekki vera ósnotur innan; hafa yfirsetukonur komið þangað því svo kvað stundum til bera að ekki fái huldufólk fætt nema mennskir fari höndum um það. Þá er huldufólkið líka dálítið upp á heiminn sem menn kalla; að því varð honum Álfa-Árna og fleirum. Hið versta er að flest mök við álfa hafa illan enda.

Engir nema skyggnir sjá álfa nema þegar þeir sjálfir vilja einhvörra sérlegra orsaka vegna, en að vera skyggn kemur af því að skírnarvatnið rennur ekki í augu barnsins þegar það er skírt.

Fardagar þess eru á gamlaársnótt; þá gengu lestaferðirnar, þá tóku húsfreyjur frá ket og krásadiska handa því og stundum gengu þær í hóla með þá þegar þær áttu þar vinkonur. Þá gengu þær líka kringum bæi sína með þessum ummælum: „Komi þeir sem koma vilja, fari þeir sem fara vilja, mér og mínum að skaðlausu.“ Þá átti að liggja á krossgötunum og horfa í egg á hárbeittri exi og mæla ekki orð hvað sem við mann var mælt, því svaraði maður varð hann vitlaus, en haldi maður þögnina út verður hann hinn margfróðasti.

Að álfasjónir eru orðnar svo fágætar nú um stundir leiðir af því að síðan uppfræðingin vóx kvað þeir hafa flutt sig til Finnmerkur.

Að rita allar þær álfasögur sem til eru og menn gætu til tínt væri bæði óþarfi og óvinnanda verk því mér er til efs að bók sú yrði orðfærri en ritningin sjálf. Fáeinum sögukornum vil eg þó hnýta hér aftan við.

  1. Hist. eccles. II. bd., 368. bls.