Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hólgöngur Silunga-Bjarnar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hólgöngur Silunga-Bjarnar

Þegar Silunga-Björn er so var nefndur var á lífi og hann var kaupamaður í Snóksdal þá hvarf hann á burt hvört laugardagskvöld þá hætt var vinnu; vissi þó enginn hvört hann fór. Þeir lögðu lag saman Sigurður son bóndans í Snóksdal og Björn. Einu sinni á mjög liðnu sumri lofaði Björn Sigurði með sér að fara fyrir áður margklifaða bón Sigurðar, af hvörju Sigurður varð glaður. Þeir gengu tveir upp á hálsinn, er liggur milli Snóksdals og Hamraenda. Þá þeir komu á miðjan hálsinn gengur Björn til útnorðurs af götunni og Sigurður með hönum. Nú tekur Björn Sigurði vara fyrir því er hönum sýndist þörf fyrir hann að varast; meðal hvörs að var það að hann mætti þar við búast að hann fengi kvenmann í rúm til sín þá hann háttaður væri. „Þar liggur þér á,“ segir Björn, „að þú snúir strax að henni og þú verðir henni að duganlegum manni til amorsleika, en ef þú gjörir ei so má það kannske beggja líf okkar kosta.

Sigurður lofar til þeirra verka vel að duga. Björn segir: „Þar liggur okkur ei lítið á að þú það endir og látir ei bregðast.“ Nú ganga þeir þar til þeir komu að hól einum. Björn tekur þá upp sprota og slær á hólinn; að því búnu lýkst upp hóllinn; er þá að sjá sem húsdyr á hólnum og gengur þar út kona, öldruð nokkuð að Sigurði sýnist. Björn heilsar henni vingjarnlega; hún tekur þá í hönd Birni og leiðir hann með sér í hólinn. Eftir það kemur ungur kvenmaður út og tekur í hönd á Sigurði og leiðir hann með sér í hólinn og lætur hann setjast við eitt borð hjá Birni. Síðan var matur á borð borinn, steiktur silungur og brauð, einnin grjónagrautur. Þeir fá sér nú mat; einatt er Björn að tala við þær, sérdeilis hina eldri, og þá máltíð er enduð er Birni til sængur fylgt. En þá hann háttaður er stígur sú hin eldri konan í sæng hjá hönum; leggjast þau so niður og faðmar Björn hana eftir vana sínum. Nú vísar hin yngri Sigurði til hvílu og þjónar hönum til sængur; þar eftir afklæðir hún sig og stingur upp í rúmið hjá hönum og leggst niður. Bregður Sigurður þá af ráðum Björns og snýr frá henni þar hann var þá numinn frá samræði við hana að hafa, heldur kom ótti og kvíði í staðinn girndarinnar hana til verka snerta. Ei kemur henni þetta vel að Sigurður snýr frá henni, hvar fyrir að umskipti urðu á hennar blíðu. Hún stendur upp reið mjög; finnst þá Sigurði sem húsið eður hóllinn skjálfi og var þá Björn strax á fætur kominn, leitandi sátta og friðar sér og Sigurði. Gekk þó lengi nætur óeirð í hólnum, komust þó lifandi á burt. Þá þeir voru út komnir ávítaði Björn Sigurð hart að hann braut af hans ráðum og kvað það hefði verið stór lukka að óskemmdir hefðu á braut komizt; enda sagðist Björn hafa gjört sitt hið bezta er getað hefði, að stilla reiði þeirra og kvaðst hann [ei] lengri né hættulegri nótt lifað hafa. Þeir fóru so heim í Snóksdal og létu ei á bera. Sigurður sagði að Björn hefði sér sagt að hann hefði getað í sátt komizt aftur við þær huldukonurnar þó bágt hefði það viljað veita. Sigurður beiddi ei Björn sér oftar að lofa með sér í hóla að fara. Frá þessu hafði Sigurður sjálfur sagt, en hann var að sögn manna enginn skjalari. En Björn var alþekktur fyrir hólagöngur og að hafa samræði með huldufólki eður álfakonum.