Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Höggin og járnlokan í Hafrafellstungu

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Höggin og járnlokan í Hafrafellstungu

Það var einu sinni í Hafrafellstungu í Axarfirði að bjó aldraður bóndi sem átti sér unga konu. Þau sváfu fram í bæjardyralofti og var læst loft fram við stafn sem þau sváfu í. Það bar til einu sinni er þau vóru háttuð að það var barið óþyrmilega í bæjarhurðina svo að allt skalf undir. Bóndi vildi líta út um gluggann, en konan þorði það ekki og bað hann að láta það vera. En um morguninn þegar komið var á fætur og átti að fara að ljúka opnum bænum þá var það ómögulegt; það var undur-digur járnloka fyrir bæjardyrunum, sem mönnum sýndist að mundi vera ómögulegt [að] beygja. Hún var kengbogin og ómögulegt að ná henni úr svo hún varð loks brotin af járnunum, og þegar út var komið þá sáu menn ekkert. Það er hátt fjall upp yfir bænum. Það eru getgátur manna það muni hafa verið einhvur vættur úr fjallinu sem hafi ætlað sér að ná konunni frá bónda.