Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Húslestur hjá huldufólki
Húslestur hjá huldufólki
Ég hefi heyrt 1861 frá því sagt um nafngreindan merkismann í Skagafirði († c. 1846) að eitt sinn var hann á ferð út eftir Blönduhlíð endilangri á nýársnótt. Gerði þá á hann logndrífu svo hann vissi ekki glöggt hvað hann fór. Kom hann þá að glugga einum, staldraði þar lítið við og varð þess var að verið var að lesa húslestur, en á því furðaði hann sig að hann skildi ekki það sem verið var að lesa. Heldur hann nú áfram lítið eitt og kemur að öðrum glugga. Þar er líka (annað) fólk inni og er að lesa; skilur hann það ekki heldur. Kemur hann þannig með litlu millibili að fimm eða sex gluggum og er alstaðar eins ástatt að verið er að lesa, en hann skilur ekki málið. Er hann nú farinn að hugsa að ekki sé allt einleikið og fer að reyna að átta sig. Þekkir hann þá að hann er kominn rétt að túngarðinum á Víðivöllum og hafði farið framhjá klappabelti sem þar er rétt fyrir sunnan og orð liggur á að fullt sé af góðu huldufólki (bjartálfum).[1]
- ↑ Mann þann sem þessi frásögn er um þekkti ég og bar mikla virðing fyrir. Hvort þetta hefir nokkurn tíma fyrir hann borið eða sagan hefir myndazt svona hinn veginn veit ég öldungis ekki. Hver mér sagði söguna man ég ekki heldur því ég setti hana lítið á mig fyrst í stað. Sagan mundi hafa skeð hér um milli 1800 og 1810. [Hdr.]