Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Halldór litli Erlendsson

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Halldór litli Erlendsson

Fyrir hálfri annari öld síðan, um sautjándu aldamótin, bjó Erlendur bóndi í Vopnafirði (sögumann minnir á Hauksstöðum fremsta bæ í sveitinni; Erlindur var langafafaðir sögumanns). Hann átti son sem Halldór hét; hann var ungur að aldri þegar þessi saga gjörðist. Það var á sumartíma og allt fólk á engjum; aðeins kerling ein var heima er fóstra skyldi barnið. Svo stóð á að göng bein lágu úr baðstofuenda til bæjardyra svo sjá mátti fram í þær. Undir kveldið fór kerling að búa um í rúmum, en barnið var að leika sér í göngunum. Þá sér hún konu ganga inn í dyrnar, en gefur því engan gaum, heldur að konan móðir barnsins hafi komið af engi með fyrra móti. En þegar hún hefir búið um fer hún fram til að finna húsmóður sína og barnið sem hún hafði séð að hlaupið hafði úr göngunum og fram í dyrnar um leið og konan kom inn. En hún sá hvorugt mæðginanna; konan ókomin af engjum og barnið horfið. Barnsins var nú leitað alstaðar sem grandgæfilegast í hálfan mánuð, en fannst hvergi og var hætt við það. En að réttum mánuði frá hvarfi barnsins kom það sjálft inn í baðstofuna hresst og óskaddað að öllu leyti nema hvað það hafði bláan blett á annari kinninni. Barnið var nýfarið að henda orð og milli vita og gat til engra spurninga svarað nema því einu að „hún mamma hefði leitt sig, en hefði slegið sig á kinnina“.