Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hallgerður á Bláfelli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Hallgerður á Bláfelli

Maður er nefndur Ólafur og kallaður hinn eyfirzki.[1] Hann fór suður á Stafnes á hverjum vetri og reri þar til fiskjar. Einhverju sinni var það að Ólafur fór suður fjöll; gjörði þá á hann drífu mikla og fannkomu svo hann missti vegarins og viltist lengi unz hann þekkti sig undir fjalli því er Bláfell heitir; sér hann þá í drífunni ekki alllangt frá sér tröllkonu ákaflega stóra. Hún yrðir á hann að fyrra bragði og segir:

„Ólafur muður,
ætlarðu suður?
Vel mun þér veita
með hestana[2] feita.
[Ræð ég þér það rangkjaftur
að þú snúir heim aftur.
Gyrtu þig betur
ef þú ætlar að róa á Stafnesi í vetur.“[3]

Ólafi varð síðan gengið í för tröllkonunnar og sá hann að blóð var í þeim. Bauð hann henni þá að setjast á lend áburðarhestsins, en láta þó hestinn jafngóðan.[4] Hún þáði það og sagði: „Kennir hver sín þó klækjóttur sé.“ Reið hún svo um stund þangað til hún kom Ólafi aftur á rétta leið. En þegar hún skildi við hann sagði hún honum að hann skyldi sleppa hestunum er suður kæmi og ekki skipta sér af þeim meir. Gekk svo Ólafi ferðin greiðlega; þegar hann kom suður sleppti hann hestunum og hurfu þeir bráðum. En í lokin um vorið komu þeir aftur og voru þá hjólspikaðir. Sneri Ólafur norður aftur og er hans ekki getið að fleiru.

Lík saga þessari gengur fyrir vestan um kerlinguna á Kerlingarskarði. Tveir menn riðu suður yfir skarð; hét annar Ólafur, en um nafn hins er ekki getið. Á skarðinu hittu þeir tröllkonu sem ávarpaði þá þannig:

„Ólafur muður[5]
ætlarðu suður?
Þér mun vegna vel.
En ræð ég þér það rangkjaftur
þú snáfir heim í sveit aftur.“

Þá svaraði maðurinn: „Líttu til austurs; þar ríður maður á ljósum hesti.“ Kerling gerði svo, en þá ljómaði dagur og varð kerling að steini.

  1. Séra Jón [Þórðarson] hefur fyrirsögn þessari sögu: „Ólafur eyfirzki“.
  2. „meri þína“, Páll Vídalín: Fornyrði, Reykjavík 1854, 512. bls.; aðrir hafa: „færleikinn“.
  3. Síðari vísuhelminginn hafa aðrir þannig:
    Snúðu aftur snarkjaftur
    og snáfaðu heim í sveit aftur.
    Láttu aldrei betur
    og láttu aldrei betur.
  4. Því beiddi Ólafur Hallgerði að „láta hestinn jafngóðan“ að dæmi eru til þess að tröll hafi sligað hesta þegar þau hafa farið þeim á bak annaðhvort á förnum vegi til að hvíla sig og þau hafa verið göngumóð eða til að komast á þeim þvert yfir ár og læki. Þeir hestar sem orðið hafa fyrir sligi af tröllavöldum eru kallaðir „tröllriða“. (Í Eyrbyggju, 34. kap., er tröllriða kennd göldrum Þórólfs bægifótar). Hættara er við að þessi slys verði heldur á nóttu en degi enda er sagt að tröll séu þá ósýnileg eða bregði á sig hulinshjálmi þegar þau ríða hestum þannig, og telur séra Skúli Gíslason það eitt dæmi sem hann hafi heyrt til þess að tröll felist sýnum.
  5. Aðrir hafa „duður“.