Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hann er í hafti

Úr Wikiheimild

Það var einu sinni bóndi á bæ; hann réði til sín vinnumann til vistar. Þegar hann var búinn að [vera] árið kemur kona hans að máli við hann og segir hvert hann ætli að halda hann næsta ár. Hann játar því, og þannig liðu tvö ár að hann var hjá þeim. Hún spyr mann sinn hvert hann ætli að halda hann þriðja árið; hún segist eigi vilja hafa hann því hann væri eigi eins og annar maður, hann væri í hafti. Líður svo langt á þriðja ár að hann er kyrr hjá bónda. Vinnumaður spyr þá bónda hvert hann vilji eigi að hann sé eftirleiðis. Bóndi segir: „Nei, því konan vill þig ekki.“ „Hvað er að mér?“ mælti vinnumaður. „Hún segir að þú sért í hafti,“ sagði bóndi; „er það satt?“ sagði bóndi. „Já,“ kvað vinnumaður, „við erum andar og erum í hafti og við getum umgengizt menn og til þess erum við settir í haft að vér getum engum mein gjört. Við búum í hólum, en með því að hún er völd að því að ég má ekki vera lengur hjá ykkur þá skal ég sjá svo um að hún verði eigi laus við þunga sinn fyrr en ég er til kvaddur.“ Kom svo loks að konan lagðist á gólf og lá lengi og varð eigi léttari fyrr en hann kom að hjálpa henni. Lýkur svo sögu þessari.