Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Helga prestsdóttir

Úr Wikiheimild

Í fyrndinni bjó prestur nokkur á Fellum í Sléttuhlíð sem Þórður hét; kona hans hét Þóra; hún var kvenna vænst. Þau áttu dóttur eina sem Helga hét. Helga var fríð sýnum og þótti hún hinn bezti kvenkostur þar um sveitir. Hún hafði tvo um tvítugt þegar saga þessi gjörðist. Urðu margir hinna ungu manna til að biðja hennar og var öllum frá vísað. Mæltu það sumir að hún væri mannvönd enda væri hún væn. Helga prestdóttir var vitur og góð af sér; var hún og afskiptasöm um allan verknað og umhyggjusöm um að fólkið á bænum væri vel haldið til fata og matar; þess vegna unnu henni öll hjú föður hennar og virtu hana.

Allt í einu bregður undarlega við að Helga verður fáskiptin og sinnir lítt um bústörf; fer hún oft einförum, og tók þetta mein til með veturnóttum. Enginn gat skilið hví prestdóttir sækti svo mjög einveru. Sumir ætluðu að því mundi valda sjúkdómur, en aðrir einhver kynngi. Vannst þar engi bót á. Leið þannig veturinn til jóla.

Prestur hélt fjármann sem Þorleifur hét. Hann var ötull og trúr og vel viti borinn. Honum féll þungt um sjúkleika prestdóttur því hún hafði hylli hans eins og annara. Þorleifur fór hvern morgun snemma á fætur. Hafði hann beitarhúsagöngu alllanga og hélt fé vel til beitar. Kom hann og ekki fyrri heim af húsum jafnaðarlega en komið var fram um dagsetur. Aldrei fór Þorleifur svo snemma á fætur eða að heiman til beitarhúsanna um morgna að ekki væri prestdóttir fyrri á fótum, og þó hann kæmi seint heim að kveldi sá hann hana oftast einhvernstaðar á rjátli með bók í höndum, jafnvel þó veður væri á stundum kalt og hvasst, og las hún sí og æ með mesta áhuga. Aldrei skipti Þorleifur sér neitt af henni eða hnýsti um hagi hennar.

Á jólanótt eftir dagsetur kom Þorleifur heim af húsum eftir vana og var tunglsljós á og veður gott. Þegar hann kemur heim undir bæ sér hann mann og konu standa á kórbaki. Þau eru bæði að lesa á sömu bók og líta ekki af. Þorleifur þykist þekkja að kona sú var prestsdóttirin, en karlmanninn þekkir hann ekki. Þorleifur gengur heim á hlað og hittir engan úti; snýr hann þá út í kirkjugarð og læðist meðfram kirkjunni að baki þeim sem hann hafði þar séð og gat komið sér svo við að hann sá glöggt vöxt og yfirbragð þessa manns. Hann var á rauðum klæðum, vel vaxinn og hinn liðmannlegasti; uppháan hatt hafði hann á höfði; hár hans var gult og hrokkið og liðaðist niður um herðar; andlitið var vel fallið, augun skær og snör, nefið rétt, en þó mundi ekki vera nema ein nösin; munnurinn var nettur, hakan lítið eitt framsett og spor í. Ekki vildi Þorleifur að prestsdóttir yrði sín vör og hvarf hann heim til bæjar og inn. Hann litaðist þar um án þess á bæri og sá allt heimilisfólkið nema prestsdóttirina, hana sá hann ekki. Veik svo til rúms síns og lagðist til svefns. Þorleifur sofnar og vaknar aftur við það að hringt var til tíða. Gekk þá allt fólk í kirkju og Þorleifur síðast. Hann tók strax eftir því að prestdóttir var ekki í kirkju. Þegar inn var komið aftur úr kirkjunni var það fyrst að prestdótturinnar var saknað og var hennar leitað um bæinn, en hún fannst ekki. Þá var strax leitað til annara húsa á túni og svo til næstu bæja og fannst Helga hvergi. Ekki gat Þorleifur um það sem fyrir hann bar við nokkurn mann og var þó leitinni áfram haldið um heilan mánuð. Harmaði prestur mjög hvarf dóttur sinnar og öllum þókti mikið um vert. Liðu nú tímar fram á gói og fyrntist nokkuð yfir hinn fyrsta harm. Þá var það einn góðan veðurdag að Þorleifur vinnumaður var árla á fótum og fór á beitarhús. Hann lét út sauði og rak í haga; síðan gekk hann heim til bæjar. En er hann hafði litla stund setið datt allt í einu á mesti kafaldsbylur og var Þorleifur sauðamaður þá ekki seinn á sér, hljóp hann út í kafaldsbylinn og atlaði að hitta sauði sína og koma þeim í hús. Hann fór um sinn í hríðinni og vissi ekki hvað hann fór og hittir loksins fyrir sér reisuglegan bæ og veglegan. Datt þá veðrið niður og var blítt þegar, en ekki sá hann vítt yfir. Kona stóð úti fyrir dyrum og veik hann þangað og þekkir að þessi er prestsdóttirin. Hún heilsar á hann með nafni vingjarnlega og hann tók kveðju hennar, en var eins og hissa. Hann spyr hverju það gegndi að hann sæi hana þar og hver sá bær væri er hann þekkti ekki. Hún bað hann ekki undrast slíkt, en hún kvaðst eiga nú þar heima; skyldi hann vera alls óhræddur og koma inn með sér. Þorleifur þekktist það og leiddi hún hann inn; þau komu í eitt herbergi lítið, en fallegt; þar var ein sæng, borð og sæti. Þar vísaði hún honum til sætis. Allt sýndist honum nokkuð með öðru móti í húsi þessu en hann hafði áður séð; að vísu þókti honum það ekki viðhafnarlegt, en þó allt dýrlegt; einkum var rúmfatnaður og rúmtjöld aðdáanleg. Hún segir að hann muni gista þar í nótt og bað hann að láta sér ekki leiðast; kvað hún hann ekki þurfa að bera áhyggju fyrir fé föður síns því það sé allt komið í hús þegar, og líka hafi því verið gefið fóður því hríð sú sem á hafi dottið sé með sínu ráði til þess hann villtist þangað.

Nú hressist Þorleifur við. Helga dúkar þá borðið og ber fram mat og bjór; var það margréttað og þó mest kjötmeti, en allt með öðrum hætti en hann hafði vanizt; allur var borðbúnaður úr skíru silfri. Hún segir að hann megi neyta matarins því hann sé ljúffengur og hollur og hafi hún sjálf matreitt. Tók hann þá óspart til matar og drakk bjór með góðri lyst og þókti honum allt ljúffengt eins og hún hafði sagt. Ekki varð hann þar annara manna var, en það heyrði hann að þar nálægt sér var slegið á hljóðfæri og helzt leikin sorgarlög.

Nú segir hún honum að hún hafi hann þangað leiddan í því skyni að inna honum af högum sínum, en hann segði aftur foreldrum sínum svo þau mættu hyggja af harmi þeim sem þau bæru út af hvarfi hennar. Kvað hún huldumann hafa komið til sín á næstu veturnóttum áður og verið sér mjög fylgisaman. Hefði hann jafnan talað um ást sína til hennar og beðið sín til eiginkonu. Það hefði sér fallið mjög svo þungt, en ekki séð það mögulegt að færast undan. Hún hefði því áskilið við hann að hann kristnaðist áður en hún gengi með honum og hefði hann óðar tekið þeim kosti; því hefði hún oft verið einförum eins og Þorleifi væri öðrum fremur kunnugt, að hún hefði verið að kenna honum að lesa og uppfræða hann í kristindómi; og svo hefði seinast verið er Þorleifur sá þau á jólanóttina áður en hún hvarf á burtu. Kvaðst hún hafa vitað að hann þá forvitnaðist um hagi þeirra, en vel skyldi honum verða fyrir þagmælskuna. „Nú er ég,“ segir hún ennfremur, „kona þessa huldumanns og hér húsfreyja; og líður mér mæta vel. Hefir bóndi minn sýslu um allan Skagafjörð og er dómari allra huldumanna í héraðinu.“ Það eitt sagði hún að nú brysti á fullan fögnuð í sínum húsum að maður sinn hefði vandamál á hendi er hann þyrfti að dæma í landaþrætu milli föður síns og afa og hlyti dómurinn réttvísinnar vegna að falla móti föður hans. Helga býður síðan Þorleifi góðar nætur, segir að hann megi nú taka á sig náðir og gekk burtu.

Þorleifur háttar; sofnar hann skjótt og vaknar ekki fyrr en bjartur dagur var kominn Þegar hann hafði klæðzt kom Helga inn til hans og bar honum vistir og bjór. Þegar hann hafði etið og drukkið bjóst hann til heimferðar. Kom þá Helga með gjafir sem hún bað hann flytja frá sér til foreldra sinna. Sendi hún föður sínum hökul úr dýrum vefnaði, lagðan gullborðum, og altarisklæði, en móður sinni motur og hálsmen; voru þetta allt mestu gersemar og var hökullinn til enn á 17. öld á Staðarstað á Ölduhrygg og þótti enn bezti gripur og trúað að gæfa fylgdi. Þorleifi gaf Helga sjóð allmikinn og kvað hann skyldi aldrei pyngjuna skilja við sig og mundi hann ekki fé skorta. Segir hún honum að það vor muni hann fara burt frá Fellum og fari hann til Hrútafjarðar og eignist þar góðan kvenkost og verði þar auðsæll, langlífur og vinsæll. Kvaðst hún eiga þar í firðinum vinkonu eina og hefði hún þegar skrifað henni til og beðið hana fyrir Þorleif er hann kæmi þangað. Hún væri huldukona og mundi reynast honum vinholl. Fylgir þá Helga Þorleifi til dyra og bað heilan á burtu fara og bera foreldrum kveðjur sínar ásamt gjöfunum. Þorleifur kveður hana og skilja þau með vináttu. Gekk hann síðan á stað frá bænum eins og hún vísaði honum leið til. Veður var gott, en ekki bjart; en þegar hann var skammt á veg kominn varð honum litið til baka heim til bæjarins. Sér hann þá engan bæ, heldur klettana fyrir ofan Fell, enda sá hann þá heim að Fellum. Þegar hann kom heim afhenti hann gjafirnar frá Helgu og sagði það um hagi hennar sem þegar er áður sagt. – Um ævi sjálfs hans fór allt eins og Helga sagði honum. Og endar svo sagan af Helgu prestsdóttir frá Fellum.