Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Henglafjallaferðin

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Henglafjallaferðin

Í Þingeyjarsýslu tóku sig saman tólf menn að leita að stóðhestum í Henglafjöllum sem þeir heyrðu að enginn gat handsamað, en hefðu oft sézt þar og það fleiri en færri. Þeir eldri menn aftöldu þá mikið að fara, en þeir vóru því fastari í ásetninginum og héldu á stað með þann útbúnað er þeim þókti þurfa. Fengu þeir gott veður í viku, fundu hesta nokkra, en náðu öngum. Þókti þeim þetta ómyndarlegt að koma svo búnir, gáfu sig athugalaust í óbyggðina, og tók veður að kólna; var þó fjallbjart. Einn jarpan hest fundu þeir hjá jarpskjóttri hryssu. Hann var mjaðmarbrotinn og náðu þeir honum, en af henni sáu þeir ekki. Hugsuðu þeir sér þá að halda heimleiðis næsta dag; vóru þeir þá búnir að vera úti átta daga. Tjölduðu þeir um kvöldið undir einnri hæð nálægt stóru vatni. Að morgni var komin frosthríð svo grimm að þeir treystust ekki að vera á ferð með hesta sína og voru kyrrir þann dag. Daginn eftir var sama veður, en stórfenni komið og farið að minnka um matbjörg. Samdi þeim um að yfirgefa tjald og hesta; gengu þeir áleiðis og báru það lítið sem þeir áttu eftir af matbjörg sinni. Urðu þeir mjög villtir svo þeir vissu ekki hvað halda skyldi. Vildu þá sumir halda til suðurs, en nokkrir til norðvesturs, og varð það afráðið. Fóru þá sumir þeirra að þreytast.

Undir kvöld komu þeir á holt eitt; var það flatt og slétt. Á því fundu þeir þrjár vörður hlaðnar úr hellum. Vóru þær stórar, sérdeilis þær neðstu. Þeir gengu milli varðanna og vóru þær allar líkar hvur annari. Einn þeirra var fyrir þeim að öllum gáfum og ráðdeild. Hann sagði þeim mundi hentast að fara ekki frá vörðunum næturlangt. En nokkrir þeirra sögðust ekki þola fyrir kulda kyrsetu. Þessi eini tók það til bragðs hann fór að hlaða vörðunni um og ætlaði að hafa það sér til vinnu að halda sér hlýjum. Þegar hann lyftir neðstu hellunni og stærstu er hún felld yfir gat á holtinu. Hann fer með staf sinn og stingur honum niður og finnur hann botn og nær um þrjár álnir niður. Hann býður lagsmönnum sínum hvurt þeir vilji ekki koma niður með sér, en sumir þeirra kváðust aldrei mundu hætta á það. Einar (svo hét hann) sagðist fara einn þó enginn þeirra vildi fylgja sér. Þegar hann kemur niður er hann kominn á trépall með hlemm í miðju. Gátu þar verið nokkrir menn. Hann segir þeim frá og spur hvurt þeir vilji ekki fylgjast með. En þeir spyrja hvurt hann ætli þar að vera. Hann kvað já við, sér þækti það betra en að ráfa um freðið holtið, hvað sem fyrir ræki. Nú verða fjórir til að fara niður til hans, en hinir gengu frá og vissu þeir ekki af þeim að sinni. Einar með félögum sínum ganga um pallinn og þykir þeim betra að vera þar en standa úti. Einn þeirra ætlar að fara að ljúka upp hlemmnum og vita hvað hann sæi. Einar bannar honum það og sagði jafnframt að þeir skyldi ekkert gjöra móti sínum vilja. Þeir þyrfti önga forvitni að brúka sem þá nauðsynjaði ekki um. Hann krefðist af þeim að láta allt vera eins og hann vildi.

Í þessu bili er lokið upp hlemmnum og kemur maður upp í gatið, unglegur og fríður, og heldur á kertaljósi í hendi sér. Hann spur þá hvað þeir ferðist. Einar svarar sem var og segir honum hið sanna. Pilturinn spyr hvurt þeir ætli sér þarna að vera. Einar segir já til þess, „en betra þækti okkur ef þú gætir útvegað okkur betri beina, því mér lízt svo á þig að þú hafir góðan vilja ef þú hefðir ráð með.“ Maðurinn anzar öngu og fer niður aftur, er burt litla stund og segir þeir megi koma með sér ef þeim lítist svo. Einar kvaðst taka með þökkum hvað gott hann geti fengið. Fara þeir ofan, en sá sem fyrir var lét aftur. Var tólf hafta stigi niður og gekk ungmennið fyrir þeim. Kom hann með þá í hús með bekkjum og borði. Segir hann þeim að setjast. Gengur hann burt og er burt litla stund. Kemur hann og þrír kvenmenn með honum. Draga tvær af þeim vosklæði, en ein kemur með tvö tréföt full með slátur og segir þeim að borða. Þeir matast allir, en að því búnu kemur ungi maðurinn og ber ljós og segir þeim að koma. Leiðir hann þá í annað herbergi. Eru þar tvær stúlkurnar fyrir og fjögur rúm umbúin. Þeir hátta þar, en stúlkurnar þjóna þeim til sængur. Einn þeirra spurði stúlkuna að heiti. Einar grípur málinu fyrir og segir hann varði ekki um það; þeir skuli þiggja það sem þeim sé gott gert og láta sér þar með nægja. Þegar allir eru burt gengnir segir einn þeirra: „Falleg var önnur stúlkan svarna; gott hefði verið að mega láta hana sofa hjá sér.“ Einar sagði: „Já, að vísu var mærin fögur og mannvænleg, en aldrei verður það þitt hlutfall að njóta hennar mannkosta.“ Þeir fara af öllum fötum eftir Einars ráðum og sofa vært um nóttina.

Þegar morgnaði vakna þeir við það að ungi maðurinn býður þeim góðan dag og er þá glaðari í bragði en um kvöldið. Einar spyr um veður. Hinn segir það sé hið sama og næsta dag. Þá kemur inn gamall maður í loðnri skinnpeysu með fingravettlinga á höndum. Þá segir ungi maðurinn: „Þetta er sá sem lofar ykkur að vera.“ Einar þakkar honum fyrir góðan beina. Hann spyr þá um ferðalag þeirra. Einar segir honum allt hið sanna af því. Bóndi segir þeim farist heldur báglega og spur þá hvað þeir hugsi um samfylgdarmenn sína. Einar kvaðst ekki geta neitt um það hugsað; þegar þeir hafi ekki viljað gjöra sem hann, verði þeir sjá um sig sjálfir. „Bið ég þig nú fyrir okkur í dag eða hvað lengur.“ Hann segir svo verði að vera; gengur hann síðan burt, en ungi maðurinn var hjá þeim oftast nær um á daginn. En þegar þeir vóru klæddir komu stúlkurnar, önnur með mat, en önnur með skóföt þeirra. Mötuðust þeir og gjörðu sér glatt. Vóru þeir þar í fimm daga og kom gamli maðurinn einu sinni á dag og talaði við þá.

Einn morguninn kemur gamli maðurinn inn, býður þeim góðan dag og segir nú sé komið gott veður að ferðast. Einar segir það sé undir honum komið hvurja ásjá þeir fái hjá honum um burtförina. Hann gegnir því lítið, en segir þeim unga að búa sig til að fylgja þeim í dag, – „því þó ég láti þá óhindraða getur svo farið þeir fyrirhitti aðra en mig og er þeim þá lítt borgið.“ Kallar hann á Einar og gengur hann undan honum nokkuð löng göng, lýkur þar upp húsi og segir honum að líta inn. Sér Einar þar eru 32 karlmenn og vóru allir við ullar- og hampvinnu. Fara þeir þaðan og lýkur hann upp öðru húsi; það var skipað vopnum af öllum sortum og spyr hann nú Einar: „Heldur þú að ég hafi ráð með að hamla ferðum ykkar ef ég vildi?“ Einar kvað sér sýnast svo þó minna væri um en hann sæi þar fyrir. Búast þeir nú á stað, kveðja gamla manninn; hann tekur því vel og segir þeim ekki ætli hann að biðja þá að leyna fyrir mönnum því sem þeir hafi séð og heyrt; sér standi á sama. „En sonur minn getur bent ykkur á hvurt samfylgdarmenn þínir hafa fyrir hitt betri gistingarstað.“ Fara þeir síðan upp; var tólf hafta stiga að ganga. Þegar þeir koma út fylgir hann þeim að yztu vörðunni og vóru þeir þar sjö allir höfuðlausir. Sagði þá maðurinn þeim þeir hefði farið um nóttina og tekið burt vörðuna og farið ofan, – „en þeir höguðu sér öðruvísi en þú Einar og þar eru aðrir ráðandi en faðir minn. Eru hér þrjú býli í hæðinni þó föður míns sé stærst. En ég þóktist ekki spilla máli ykkar fyrst mitt hlutfall varð það að þið beidduð mig.“ Fylgir hann þeim lengi dags og vita þeir ekki neitt hvað hann fer með þá þar til þeir koma í einn dal; þá kvaðst hann ekki fara lengra. Gefa þeir honum það þeir höfðu af skotsilfri og skilja við hann með vinsemd. Héldu þeir til byggða og fengu gott veður, sögðu ferðir sínar ekki hafa að óskum gengið, kváðust aldrei oftar fara til Henglafjalla að fá sér hesta – og endar nú þessi saga.