Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldubátur hjá Höskuldsey

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í ey (Höskuldsey) á Breiðafirði voru eitt haust útræðisskip. Var um tíma aflalaust svo menn voru hættir að róa. Eitt kvöld kom einn formaðurinn út seint og heyrði á lítilli ey þar skammt frá mannamál og kastað fiski. „Hvað fékkstu í hlut, lagsmaður?“ sagði einn. „Ég trúi það væru 30,“ svaraði hinn. Formaður fór inn, sagði hásetum sínum frá; réri hann svo og hlóð, en engir reru um daginn aðrir, og nú var nógur fiskur kominn.

Vestra var mér sagt frá því að heila vorvertíð hefði huldufólksbátar sézt róa undan Lóndröngum.