Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufé í Hvammi

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Huldufé í Hvammi

Kringum og eftir árið 1800 bjó í Hvammi í Fljótum bóndi sem Þorvaldur hét og var Gíslason. Eitt sinn á búskaparárum hans hvarf honum ein ær grákollótt um brundtíðina og vantaði hana í hálfan mánuð. Kom hún þá sjálfkrafa í féð aftur og varð aldrei blæsma þar um veturinn. Eitt sinn um sauðburðartímann um vorið gekk Þorvaldur þar ofan fyrir völlinn að hyggja að kindum. Var þá ær þessi þar hjá Geirshúsinu, sem kallað er, að bera og var lambið hennar alla vega litt, blátt, grænt, rautt og gult og með fleiri litum. Þorvaldi þókti þetta undarlegt og stóð yfir ánni meðan hún var að bera. Síðan gekk hann heim að fá kvenmann til að mjólka ána, en þegar þau komu ofan eftir var lambið horfið. Gekk Þorvaldur þá úr öllum skugga um það sem hann hafði grunað að ærin hefði verið hjá huldufólksfé um veturinn þegar hún hvarf, og fengið við hulduhrút.