Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk á gamlaárskvöld

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Huldufólk á gamlaárskvöld

Sigurður Dalaskáld var einu sinni heimilismaður á bæ einum er enginn maður mátti vera einsamall gamlaársnótt. Tók hann sig einu sinni til að vera einn heima þá nótt og tók það fangaráðs að hann gróf gröf í gólfið sem hann var í og hafði glugg þar á er hann sá í gegnum um allan bæinn. En er dagsett var sá hann bærinn fylltist af fólki og voru það ekki mennskir menn, heldur álfar. Huldufólkið fór þegar að dansa og hélt því áfram alla nóttina, en af ákafanum í að dansa varð því svo heitt að það fór úr öllum fötum nema nærklæðum einum og steig svo dansinn náttlangt. En er dagaði hrópaði Sigurður upp, en huldufólkinu brá svo við að það hljóp og skildi eftir föt sín og varnað og dró á milli sín hálfdauðan karl er með því var og sem ávallt hafði staðið fast á því að einhver mundi í bænum vera. En er fólkið kom heim var Sigurður heill á hófi og þótti því það undrum gegna, en álfafólks varð ekki síðan vart á bæ þessum gamlaársnótt.