Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk í Hjörtsey

Úr Wikiheimild

Sannorð og ráðvönd stúlka er nú í Hjörtsey (sem heitir Rannveig Pétursdóttir); hún hefir lengi verið þar smali. En fyrir nokkrum árum var hún að smala í glaðasólskini og góðu veðri. Þá sér hún að móti henni koma þrír kvenmenn; verður henni þá hverft við. Þær halda áfram og nálgast hana. Þá hagaði svo til að hóll einn var á leiðinni. Þær halda þá neðan til undir hólinn, en hún fer ofan til við hann. En þá er hún er komin yfir fyrir hólinn sér hún þær hvörgi nokkurs staðar. Hún sagði að þær hefði allar verið svartklæddar með hvítt um hálsinn og hvíta vettlinga, lágar vexti, en gildar og mjög álap[p]alegar í göngulagi og ólíkar venjulegu kvenfólki.

Kunnugir menn telja það með öllu óyggjandi að sögusögn þessarar stúlku sé sönn að því leyti að henni hafi vissulega sýn[z]t þetta eins og hún segir frá, hvörnin sem á því hefir staðið eða hvað sem það hefir verið.

Sannsögull maður og áreiðanlegur sem nú býr í Lambhústúni í Hjörtsey segir svo frá að hann hafi eitt sinn í glaðasólskini séð mann á gangi í hvítum nærbuxum austur á eyjunni sem ekki gat verið neinn heimilismaður þar á eyjunni og ekki heldur neinn aðkomandi maður af landi, því þá var flóð.

Sagt er og að fyrrum hafi bóndi einn verið í Hjörtsey. Eitthvört sinn bar svo til er hann var ekki sjálfur heima við bæinn, en sá þó gjörla hvað leið heima við bæinn, sér hann þá að kýr fara heim í tún – það var um vorið. Hann ætlar þá að fara heim að reka þær, en í sama bili sér hann að kona hans kemur og rekur þær eða einhvör kvenmaður áþekkur henni. Litlu seinna fer hann heim og segir við konu sína: „Þú varst að reka kýrnar.“ en hún neitaði og kvaðst ekki hafa farið út síðan hann fór heiman að. Og heimilismenn sögðu allir að hvörki hún né aðrir hefði rekið þær þann dag, það þeir til vissu.