Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk í Steinahelli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Huldufólk í Steinahelli

Steinahellir er nú þingstaður Eyjafjallasveitar síðan nokkru eftir aldamótin, en áður var þinghúsið í Holti. Hann hafði að fornu fari verið hafður fyrir fjárhellir Steinamanna, einkum þegar slæmt var veður. Litlar sögur hafa af honum farið, en allt um það er hann talinn bústaður álfa og er sú saga þar til meðal annara:

Þegar síra Páll Jónsson skáldi prestur í Vestmannaeyjum var einu sinni á ferð á kvöldtíma með Solveigu dóttur sinni, nú yfirsetukonu í Eyjunum, þá getur hún um það við hann hvílíkur mannfjöldi þar væri saman kominn við hellirinn svo hún hafi aldrei meiri séð, en síra Páll sá ekkert því hann var ekki skyggn.

Allt fordyrið í hellinum er alþakið með burkna, en vandhæfi mikið er á að slíta hann ekki því þeim verður eitthvað sem hann slíta; enda hvar sem hann er.

Einu sinni kom Skúli hreppstjóri á Grund Þorvarðsson prests, nú að Prestsbakka á Síðu, þá verandi í Holti hjá föður sínum, austan fyrir ósinn ríðandi í tunglsljósi, hjarni og léttangri, og reið hann léttan. En er hann kom á móts við steininn fyrir framan hellisdyrnar stendur hesturinn allt í einu kyr svo hann kemur honum ekki feti framar. En er hann fer að knýja hann stendur hann upp á afturfótunum með frýsi og ólátum; en Skúli sem er einhuga og kappsfullur vildi víst ekki láta undan, en allt kom það fyrir eitt. Svo gekk hann vestreftir götunni, skoðaði og skimaði í allar áttir, en sá ekkert; sneri síðan austur og upp fyrir hellirinn og fór fyrir ofan hann. – Frá þessu heyrði ég hann segja sjálfan.