Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk í Tónum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldufólk í Tónum

Sá eini staður í Barðssókn í Fljótum sem ég nú (1862) hefi orðið var um að nokkur maður héldi huldufólk í er klettabelti það sem kallað er Tónur[1] fram og upp undan Helgustöðum í Flókadal. Þegar ég var barn á Krakavöllum (hér um 1826) heyrði ég þess getið að barn hefði verið elt á Helgustöðum og náðst hátt upp í fjalli, og sagðist það vera „að elta hana Maju sína“. Barn þetta hét Þórdís, þá hér um sex ára, og var fósturbarn hjá Lofti sem þá bjó á Helgustöðum, kringum 1760. Sýndist barninu húsmóðirin sem það kallaði „Maju sína“ ganga upp fjallið á undan sér. Í klettabelti þessu hefir oft sézt ljós á kvöldtíma, þar nálægt hefir líka sézt fólk á gangi, og einu sinni heyrðist þar barnsgrátur í kvöldmyrkri.

  1. Orðið „tónur“ (fem. pl.) hefi ég hvergi heyrt nema í Flókadal, þar eru til þrennar tónur, nefnilega Helgustaða-tónur, Stekkskálar-tónur og Hrútaskálar-tónur. Það eru klettabelti hátt í fjalli. Nafnið kemur líklega annaðhvort af „tón“ = þær tónandi, bergmálandi, eða það kemur af = lítil grastorfa í klettum, pl. tór, með articula: tórnar, dativus tónum, og hefir myndazt þannig: „Hvar fannstu ærnar?“ – „Þær voru fram í tónum,“ — og svo af þessu dativus myndazt nominativus „tónur“. [Hdr.]