Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk í Vökuhól

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldufólk í Vökuhól

Á öndverðri 16. öld var sá prestur í Hvammi í Laxárdal er Einar hét og var Úlfsson. Þá bjó sá bóndi á Hafragili er Þorsteinn er nefndur Þórðarson; með honum var á vist griðkona ein Sigþrúður að nafni. Í túninu á Hafragili er sá hóll er Vökuhóll heitir. Milli hóls þessa og bæjarins fellur brunnlækur lítill.

Svo er sagt að eitt kvöld um vetur væri Sigþrúður að vatna kúm; kemur þar þá maður ókunnur til hennar að læknum og biður hana ganga með sér. Hún gerir sem hann biður og ganga þau í hólinn. Þar sér hún konu liggja á gólfi, og getur eigi fætt. Sigþrúður fer síðan höndum um hana og verður þá konan brátt léttari. Þau huldumaður þakka Sigþrúði vel þetta liðsinni og gefur konan henni að launum linda, svuntu og klút, allt fáséna gripi og góða, en huldumaður tekur upp hjá sér bauk einn og rýður úr honum á annað auga henni og kveður hana síðan munu sjá nokkuru fleira en alþýðu manna, en biður hana þar þó eigi orð á gjöra. Sigþrúður heitir því. Síðan fylgir hann henni aftur til lækjarins, og skilur þar með þeim.

Nokkuru síðar er Sigþrúður þessi stödd vestur í Höfðakaupstað; var þar þá kaupstefna sem mest. Þar kennir hún aftur huldumanninn kunningja sinn og er hann að taka út ýmsan varning í búð kaupmanns og er svo sem engi sjái hann. Sigþrúði varð hverft við og mælti til hans: „Vara þig maður.“ Hann leit við henni og brá þegar fingri sínum á auga henni, það er hann hafði fyrr roðið á úr bauknum, enda var hann henni þá horfinn og sá hún hann aldrei síðan né heldur fleira en aðrir menn.