Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólk ragmanað

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldufólk ragmanað

Það er frá því sagt um Guðrúnu Runólfsdóttur konu administrators B. Ólsens á Þingeyrum († c. 1843) að hún eitt sinn í ungdæmi sínu var með fleirum börnum að leika sér nálægt klöpp einni, og var þar hellir inn. Orð var á að huldufólk væri í hellinum og var hálfgeigur í hinum börnunum. Láði Guðrún þeim það fremur og sagðist skyldi sýna þeim hvað hrædd hún væri við huldufólkið. Hljóp hún þá inn í hellinn og kallar snjallt: „Ef þið eruð nú hérna til, huldufólk, þá ragmana ég ykkur að þið lofið mér nú að sjá ykkur.“ En í sama bili opnast bergið inn og kemur fram í hellinn ljómandi fallegur unglingsmaður, hér um bil sextán vetra gamall. Varð þá Guðrún fremur skelkuð og segir: „Ég bið ykkur forláts, ég skal aldrei gera þetta oftar, en í guðs nafni látiði mig ekki gjalda.“[1]

  1. Þessi saga er haldin sönn. – J. N.