Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólkið í Álfaborginni hjá Jökulsá

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjóri Jón Árnason

Á Jökulsá í Borgarfirði bjó bóndi. Honum var settur eitt haust ómagi og var stúlka. Þessa stúlku hélt hann í þrjú ár og fór ætíð [illa] með hana, lét hana þola erfiði og sult. Á nýjársdag hið fjórða ár fara hjónin til kirkju og skipar bóndi henni að vanda að hirða féð í hús um kveldið, en engan mat fékk hún. Rekur hún féð á móinn sem er fyrir utan Jökulsárbæinn, en fer að bera hey á garða. Meðan hún var að því brast í veður og ætlaði hún að ná fénu. En er hún kom á mýrina fyrir framan Álfaborgina mætti hún manni sem segir hún skuli koma með sér því þetta sé hið mesta fárviðri. Lét hún að orðum hans og fór með honum í Álfaborgina. Þegar hún kom þar inn sá hún þar þokkaleg híbýli, en ekki aðra menn en kerlingu sem sat á hápalli. Karlmaðurinn vísar henni til sætis og fór þá kerlingin ofan og kom aftur með kjöt á diski og grjón í aski. Stúlkan krossar sig og tekur síðan til matar og er hún var mett tekur kerling leifarnar og segir: „Ekki þurftirðu að krossa þetta, ólukku kindin.“ Þar var hún þá nótt.

Um morguninn fór Jökulsárbóndinn að leita fjár síns og fann hann það veðurbarið og illa til reika. Seint um daginn fór stúlkan heim og er bóndi sá hana varð hann ófrýnn, átaldi hana harðlega og lét hana nú nær engan mat fá. Samt fitnaði hún óðum og vissi enginn hvað ylli. Eitt sinn kom bóndi í fjárhús til hennar og fann þar hjá henni sauðarhupp. Reiddist þá bóndi og skeytti á henni skapi sínu og kallaði hana þjóf. Um sumarmálin hvarf hún. Lét þá prestur safna mönnum; leituðu þeir og fannst hún ekki. Seinna sagði kona sem var á Bakka að hún væri í Álfaborginni því að hún hefði verið hjá henni fjórum sinnum í barnsburðarnauð. Sagði hún hana lifa þar vel ánægða.