Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufólkið í Hólaklöppum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Huldufólkið í Hólaklöppum

Að Hólum í Laxárdal bjuggu einhverju sinni hjón nokkur, efnug og í betri manna röð. Þau höfðu tekið dreng til fósturs er Erlendur hét. Hann var á þriðja eða fjórða ári er þessi saga gjörðist. Það var eitt vor að fólk allt var úti á túni að vinna á því og hirða eldivið, en kerling ein karlæg var inni og skyldi hún gæta Erlendar og fleiri barna að þau færi sér ekki að voða. Það var einhverju sinni um daginn að kerlingu sýnist sem bóndi komi að baðstofudyrum og taki drenginn Erlend með sér; ætlar kerling að bóndi muni hafa farið með hann út á túnið til fólksins og gefur þessu engan gaum. Og um daginn er fólkið kemur inn að borða miðdagsverð spyr kerling eftir Erlendi. En enginn hefur orðið var við hann og þversynjar bóndi fyrir það að hann hafi komið að baðstofudyrum um það leyti kerlingu sýndist hann koma þar. Furðar alla stórum á hvarfi drengsins og er hans víða leitað og kemur fyrir ekkert.

Þá bjó Arnþór að Sandi í Aðaldal. Hann var margkunnugur og hafði mörgum að liði orðið með kunnáttu sinni, þeim er heillaðir höfðu verið af huldufólki eður ásóttir af fjölkynngi. Tóku hjónin í Hólum það ráð að þau senda til Arnþórs og segja honum hvarf drengsins og biðja hann liðveizlu að vita hvar drengur er niðurkominn og svo að ná honum ef þess væri kostur. Arnþór segist að vísu vita hvar drengur sé niðurkominn, hann sé hjá huldufólki sem búi í klöppinni fyrir ofan bæinn að Hólum, en það sé ekki svo auðvelt að ná honum þaðan. Þó segir hann sendimanni að fara heim aftur og skuli vitja sín ef ekkert verði vart við Erlend innan viku. Fer sendimaður við það heim aftur. En á sjöunda degi frá því er Erlendur hvarf sat fólk allt að miðdegisverði inni í baðstofu að Hólum. Og er minnst varði vindur drengnum Erlendi inn í baðstofuna og er hann að öllu leyti eins og hann var nema hann hefur fengið bláan flekk á hægri kinnina. Er drengurinn því næst að spurður hvar hann hafi verið og með hverjum atburðum hann hafi hvorfið og aftur komið. Segir hann að þennan sama dag er hann hvarf hafi bóndinn fóstri sinn komið að baðstofudyrum og tekið sig með sér, hafi farið með sig frá bænum og yfir lítinn læk er á var leiðinni. En er þeir höfðu skammt farið frá læknum koma þeir að litlu en fögru húsi. Er þar kona fyrir bláklædd og tekur hún við Erlendi og vill vera honum mikið góð, en drengur þekkist það lítt. En er Erlendur hefur verið nokkra daga hjá konunni er það einu sinni að setur að honum grát mikinn og leitar konan allra bragða í að hugga hann og getur ekki. Sýnir hún honum gull og gersemar og ýmsa gripi til að hafa af honum og kemur allt fyrir eitt. Og fer svo að lyktum að konan fer með Erlend og fylgir honum yfir þann sama læk sem áður er nefndur. Þar skilur hún hann eftir og rekur honum löðrung um leið og hún skilur við hann, segir hann skuli hafa þetta fyrir alla óspektina. Og sem konan er skilin við Erlend sér hann bæinn og heldur heimleiðis. En blái flekkurinn sem hann hafði á kinninni var eftir löðrungi konunnar.

Erlendur varð gamall maður og nýtur bóndi. Er mikil ætt komin frá honum nyrðra. Er svo sagt að hann væri með bláa flekkinn á kinninni alla ævi sína.