Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldufríður, Sigríður og Helga

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldufríður, Sigríður og Helga

Það var einu sinni ríkur bóndi á bæ, mig minnir helzt í Skriðdal. Ekki hefi ég heyrt nafn hans og ei heldur konu hans; en dóttur áttu þau eina er Helga hét. Til þeirra var settur sveitarómagi, unglingsstúlka að nafni Sigríður. Var konan henni hörð og á allan hátt ill, en Helga hélt í hönd með henni og vildi bæta úr fyrir henni. Það var eitt með öðru sem stúlka þessi var látin gjöra að hún mátti sækja kýr á sumrin og var þó yfir slæma á að fara. Eitt kvöld var stórhríð og illviðri svo hún vegraði sér að fara, en húsmóðir hennar skipaði henni með harðri hendi. Léði Helga henni þá föt af sér, því sjálf var hún klæðlaus. Fer hún svo af stað og kemst svo yfir ána með illan leik. En á meðan hún er að leita kýrnar uppi hefir áin vaxið svo að kýrnar fá sund yfir hana, en hún stendur þar í veðrinu ráðalaus á bakkanum. Tekur hún það til bragðs að hún ráfar þar að stórum kletti sem hún ætlar að skýla sér undir. Situr hún þar litla stund í döprum þönkum áður hún sér mann í rauðum skarlatskjól standa hjá sér; hún heilsar til hans, en hann svarar því ekki, en tekur hana upp í fang sér og ber hana inn í klettinn. Þar sér Sigríður sitja ungan kvenmann sem hinn rauðklæddi maður ávarpar þannig: „Huldufríður systir, taktu nú við stúlku þessari og hjúkraðu henni og dubbaðu svo vel sem þú getur því hún skal verða konan mín.“ Hverfur svo maðurinn, en hún situr þarna eftir hjá Huldufríði sem færir henni heitan mat og lætur hana hátta til fóta sinna í rúm sem þar var. Morguninn eftir tekur Huldufríður Sigríði, laugar hana, rakar af henni allt hár og kembir og skefur allt höfuð hennar, því hún hafði óhreint höfuð. Segir ekki af því annað en þetta sama var gjört í þrjá morgna í röð og henni fenginn nýr klæðnaður. En svo skipti fljótt um að eftir viku var Sigríður búin að fá fagurt og mikið hár. Aldrei sá hún kjólmanninn og svo leið og beið. Kenndi álfstúlkan henni alslags vinnubrögð svo hún var nú orðin allt önnur. Svona leið fram undir jól að hún sá öngvan nema Huldufríði og einu sinni hafði hún séð gamallri konu grænklæddri bregða fyrir. En viku fyrir jólin kemur þessi grænklædda kona þar fram úr húsi og heilsar upp á Sigríði og réttir að henni rauðan klæðisstranga og segir að hún skuli sauma úr þessu kjól og tekur Huldufríði vara að hjálpa henni ekki; en verkinu verður hún að vera búin að lúka á aðfangadag; gengur síðan í burt. Nú byrjar hún á starfa sínum og bregður Huldufríður út af boðinu og fer að hjálpa henni til. Og eitt sinn er þær eru að sauma segir hún við Sigríði: „Nú skal ég segja þér hvörjir það eru sem hér búa fleiri en ég. Maðurinn sem bar þig fyrst inn hingað er bróðir minn og er ógiftur, en ætlar nú að giftast þér á jólunum. Annan bróðir á ég hér eldri. Hann er prestur; er hann ekkjumaður. Ætlar hann sér að ná Helgu vinkonu þinni þegar þú býður henni í brúðkaup þitt sem þú átt að gjöra, en ég ætla að fara með þér. En gamla konan er móðir okkar og er hún prestsekkja. Ætlar hún þér kjól þennan fyrir brúðarkjól.“ Tók Sigríður vel á öllu þessu.

Nú kemur aðfangadagurinn og kemur þá gamla konan og spyr eftir kjólnum. Fær Sigríður henni hann. Segir sú gamla að ekki hafi hún verið ein um hann; en samt gjöri hún sig ánægða því hún sjái það sé eins vel gjört sem hún hafi saumað – „og skaltu nú eiga hann“. Í þessu kemur rauðklæddi maðurinn og heilsar nú Sigríði með kossi og hefir nú bónorð sitt við hana og er það auðsókt. Segir hann henni að nú skuli hún fara og bjóða Helgu og foreldrum hennar í veizluna sína og biður Huldufríði að fara með henni. Segir ekki af því meir fyrr en þær berja að dyrum hjá bónda þeim er Sigríður hafði verið hjá. Kom Helga út og þekkti Sigríði þá ógjörla enda höfðu allir talið víst að hún hefði drukknað í ánni. Segir Sigríður Helgu allt hið sanna hvörnig til hafði gengið um hagi sína. Býður hún henni með sér og segir henni að koma strax, en vísa foreldrum sínum á bústað þeirra eftir tilvísan sinni og skuli þau koma á morgun. Gjörir Helga þetta og tekur kelling því illa og segist hvörgi muni fara til hyskis þess er Sigga hafi strokið til, en Helga kveðst fara engu að síður og býr hún sig sem skjótast og fer með þeim. En á jóladagsmorguninn koma þau samt kall og kelling. Er þá op á klettunum hvar þau ganga inn. Sjá þau þar þá fjölda fólks saman komið og virðist þeim sem í kirkju sé. Setjast þau þar í horn og er prestur þar skrýddur fyrir altari. Nú sjá þau að tveir vel búnir menn eru leiddir inn og svo Helga dóttir þeirra og Sigríður. Fram fer þar hjónavígsla og þessar persónur gefnar saman. Að þessu búnu er farið úr kirkju og kall og kelling leidd inn. Kemur þá hin grænklædda kona til kellingar og tekur henni harðar átölur fyrir meðferð á Sigríði þegar hún hafi verið hjá henni og ekki geti hún launað henni það með öðru en því að aldrei héðan í frá skuli hún sjá dóttur sína og ei skuli bóndi hennar heldur með henni fara; en sjálf skuli hún snauta til bús síns og skuli hún þó aldrei frið hafa. Fór þetta allt sem huldukonan sagði, en áður kelling fór sagði Helga móður sinni sögu þessa er Sigríður hafði sagt henni.