Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldukaupstaður hjá Halllandskletti

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Huldukaupstaður hjá Halllandskletti

Það er almæli að huldufólk hafi búið í hólum og klettum hingað og þangað um allt land og það svo margt að skip hafi komið af hafi með vörubirgðir handa því. Á vorin þegar fyrstu skip komu á Akureyri sáust skip fyrir framan Halllandsklett andspænis Akureyri hinumegin (austan megin) á höfninni. Þar lágu huldufólksskipin jafnhliða skipum landsmanna og átti huldufólk að hafa verzlað þar við klettinn. En aðeins skyggnir menn sáu skipin eins og líka huldufólkið sjálft.

Sú saga gjörðist fyrir réttri öld [um 1760] að einvirki bjó á Vöglum í Hrafnagilssókn í Eyjafirði skammt frá Akureyri. Á vortíma var konan að nafni Ingibjörg að hreinsa á túni; það var á laugardagsnótt; veður var gott. Hún hreinsaði alla nóttina til sólaruppkomu, en sól rann þar snemma á morgnana því bærinn stendur hátt. Þá gekk hún inn og vildi taka á sig náðir og hafði þegar klæðzt úr öllum ytri fötum. Þá þurfti hún út til að reka fé úr túni og fer fram á nærfötunum. Þegar hún kemur í bæjardyrnar sér hún hvar koma fjórir menn að utan og neðan, alfaraveg, með allmarga hesta, alla klyfjaða með kaupstaðarvarning, kornvöru og trjávið og fleira. Hún aðgáði og mundi hestalit og hestatölu, en sögumaður (dóttursonur hennar) mundi það ekki. Hún skýldi sér bak við bæjarstaf því hún var fáklædd. Þeir riðu um hlaðið sem leið lá, en mæltu ekki orð frá munni. Úr hlaðinu sér hún þeir ríða ekki fram sveitarveginn, heldur fara suður og upp til fjalls fjárstíg einn mjög ógreiðfæran eftir brekkum tveim, Beizlabrekku og Fögrubrekku, í þeirri átt voru fjarska miklar klappir og klungur, og fjærri öllum mannavegi. Hún fylgdi þeim með augunum þangað til þeir hurfu fyrir eina klöppina og sáust þeir eigi síðan. En Ingibjörg þessi var hið mesta dánukvendi og hin sannsöglasta. Lagði hún eið út á að þetta hefði hún séð með eigin augum sínum sem nú var frá sagt.

Það liggur svo sem í augum uppi að þetta átti að vera kaupstaðarlest frá Halllandskletti.