Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldukonan í Hafnanúp

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Á öndverði 18. öld bjó sá bóndi í Höfnum á Skaga er Sigurður hét; hann var kvongaður og átti þá konu er Þuríður er nefnd. Þau áttu fjögur börn; hétu synir þeirra Bjarni, Jón og Óttar, en dóttir Þórunn. Þeir bræður voru allir miklir menn fyrir sér og nokkuð fornlegir í skapi. Systir þeirra var harðla fríð sýnum, kurteis og vel að sér gjör. Hún var blíðlynd og góðsöm svo að hvert mannsbarn unni henni hugástum, og að öllu þótti hún hinn bezti kvenkostur. Eitt haust er svo frá sagt að hún var að leita lamba föður síns; hún fann ei lömbin og vildi því snúa heim aftur þá er myrkt var orðið af nótt. Gekk hún nú út með Hafnanúp að austan. Verður henni þá litið á klettabelti eitt í núpnum; þar sér hún dyr opnar standa á berginu; brennur þar ljós á lampa skammt frá rekkju einni í húsinu, en kona bláklædd og álitleg sýnum situr á stóli rétt hjá ljósinu. Hún var að sauma og leit vingjarnlega út til Þórunnar, en mærin varð hrædd mjög og hljóp sem skjótast á brott; þó varð henni litið við aftur. Þótti henni þá sem konan renndi til sín óhýru auga og í því lukust aftur dyrnar. Nú villtist Þórunn og komst ekki heim um kvöldið. Daginn eftir var hennar leitað og fannst hún ekki. En á þriðja degi fannst hún um síðir austur við á þá er Hafnaá er kölluð; svaf hún þá eða lá sem í einhverju dái. Hún var síðan flutt heim; en er hún vaknaði við var hún hálftrufluð og afskræmd í andliti. Varð hún aldrei síðan söm og áður, hvorki að yfirlitum né í skapi.[1]


  1. Þessi atburður sem hér er frá sagt á að vera sannur. – P. J.