Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldukonan í Seley

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Seint á sextándu öld bjó prestur á Hólmum í Reyðarfirði sem Eyjólfur[1] hét. Hann átti son þann sem Árni hét. Þegar hann var um tvítugt bar það til tíðinda eitt haust að prestur sendi Árna son sinn með sex mönnum út í svokallaða Seley, sem er út í fjarðarmynni, eftir skreið, og er eign og veiðistaða kirkjustaðarins. Eyja þessi er með öllu óbyggð nema vermannaskálar tómir. Þegar þeir komu að eyjunni var veður gott; báru þeir svo á skip allt sem matarætt var í skálunum. En á meðan þeir vóru að því gekk sjór og brim svo mikið upp að ófært var orðið að halda skipinu við, en Árni var að sækja mastur og segl upp að skálanum. Hleyptu þeir því frá landi og ætluðu að taka Árna í öðrum stað, en brimið jókst svo að alstaðar var ófært; kallaði hann þá seinast til þeirra og skipaði þeim að hætta við að ná sér, en reyna heldur að forða lífi sínu og halda heim, því bæði skyggði að veður og kvöld. Þeir gjörðu þá svo, en ætluðu strax daginn eftir að ná honum, en þá var ófært veður bæði á sjó og landi og gekk svo í heilan mánuð, aldrei var fært á sjó. Eftir þetta var reynt oft til, en aldrei varð komizt, því ævinlega áður en komizt var á miðja leið var orðinn ófær sjór eða veður, þar til í góulok að stillti svo veðráttufar að komizt varð í eyjuna að vitja um bein hans sem foreldrar hans þráðu svo mjög, og gekk þeim svo vel. En þegar þeir koma að eyjunni kemur Árni á móti þeim heill heilsu með glöðu bragði og góðu útliti. Þeir spurðu hann hvað því ylli að hann væri lífs og heill, og kvað hann það öngvu skipta þá, sér hefði liðið vel og hann væri eins og þeir sæju með heilu og höldnu lifandi. Nú komu þeir heim með hann og urðu foreldrar hans bæði fagnandi og undrunarfull yfir afturkomu hans. En hvurki þeim né öðrum sagði Árni neitt um ásigkomulag sitt í eyjunni.

Nú leið til næsta sumars; þá var það einn sunnudag að prestur séra Eyjólfur kom úr kirkju og fólk allt. Stóð þá barnsvagga með ungabarni í skammt frá kirkjudyrunum. Spurði þá prestur allan söfnuðinn að hvurt nokkur vissi deili á barni þessu og kvaðst það enginn vita. Hann sendi um sveitina og spurði um þetta og fékk öngva upplýsingu um þetta. Nú tók hann Árna son sinn fyrir og biður hann að rannsaka vel ástand sitt í eyjunni og segja sér hvurt hann viti nokkrar deilur á barni þessu. Hann bar harðlega á móti því. Nú var tilrætt um hvurt skíra ætti barnið eða hvurt það mundi skírt vera og héldu það flestir að það mundi ekki vera. Ráðgaðist þá prestur við meðhjálpara sinn hvurt skíra ætti barnið, og féllust þeir á það. En þegar til átti að taka var barnið horfið og hefur ekki síðan sézt.

Nú líða nokkrir dagar þar til einn morgun að Árni gekk heim af velli, því það stóð yfir vallarsláttur, og fer heim í hlöðu sem var áföst við bæinn til að sofa, því hann hafði vakað um nóttina áður. Var hann þar tímakorn; þegar hann kom út sýndist mönnum honum þó brugðið; bæði var hann mikið fálátur og mjög undarlegur um höfuðið. Fór þetta svo mjög vaxandi að hann varð ekki mönnum sinnandi og lagðist í rúmið. Gekk þá faðir hans á hann og spurði hvurt hann vissi enga orsök til þessa síns veikleika. Segir hann honum þá upp alla sögu að þegar hann hafi orðið eftir í eyjunni hafi til sín komið maður mikið vel búinn og boðið sér heim til sín og kvaðst vera prestur eyjarbúa. Þetta þáði hann og var hjá honum um veturinn og sængaði hjá dóttir hans, en að skilnaði segir hann að hún hafi beðið sig þess seinast orða að kannast við barn það sem hún væri ólétt að eftir hann, og því hafi hann lofað henni. Nú var þetta barnið sem fyrr var um getið og kvaðst hann ómögulega hafa viðurkennt þetta þá, en þegar hann hafi lagt sig í hlöðuna hafi hún komið til sín mikið reið og brigzlað sér um svik og óhaldinyrði og slegið sig í andlitið með vettling sínum og sagt að hann skyldi taka þann veikleika sem mundi valda því að fleiri stúlkur mundi ekki glæpast á fegurð hans, og skildi svo við hann.

Nú leið lengi og alltaf uxu og versnuðu veikindi hans og er sagt að höfuð hans hafi orðið líkast á sel eða hundi. Nú hafði hann önga eirð heima og eirði hvurgi og var hingað og þangað. Loksins eftir mörg ár var honum ráðlagt að finna mann sem bjó í Suður-Álftafirði og hét Jón lærði; hann þótti margvís. Þetta gjörði Árni og skoraði fast á Jón, ef hann gæti, að ráða bót á vanheilsu sinni, og var hjá honum nokkurn tíma þar til Jón segir honum einu sinni að nú hafi hann fyrir skömmu fundið lagskonu hans og talað um veikindi hans og ásigkomulag og hafi hún sagt að það væri honum mátulegt fyrir svik sín, en þó hafi hún sagt að reynandi væri fyrir hann að láta veita sér sakramenti af kaleik þeim sem væri frá huldufólki og væri sá firri nema kaleikur á Breiðabólstað í Fljótshlíð sem átti að koma úr Mælishól. Gjörði svo Árni þetta og segir þar með alla orsök veikinda upp fyrir söfnuð sömu kirkju. Og batnaði honum svo að mestu leyti; var þó ætíð undarlegur eftir það og fór oft einförum og aldrei við kvenmann kenndur.


  1. Engar heimildir eru til um prest með þessu nafni á Hólmum.