Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldukonan og bóndinn á Vöglum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldukonan og bóndinn á Vöglum

Í gamla daga bjó bóndi nokkur á Vöglum; það er nú eyðikot norðan í Fjallsöxl á vestanverðum Skaga; önnur saga segir að þetta hafi verið presturinn að Hofi. Hann hvarf á brott af heimili sínu á hverju laugardagskvöldi svo að engi vissi hvert hann fór. Eitt sinn bað vinnumaður hans einn að mega fara með honum; bóndi leyfði það, en kvað hann þá verða að gera allt hið sama er hann sæi sig gera. Vinnumaður játti því. Eftir það gengu þeir af stað og komu að einum hól eður kletti. Þar lukust upp dyr og gengu þeir í hólinn. Þar sá vinnumaður konur tvær; var önnur hnigin að aldri, en hin ung, og skildist vinnumanni svo að þær myndi vera mæðgur. Fátt var þar manna annað. Þar voru snotur húsakynni og allt prýtt og fágað; fóru þar og allir hlutir fram vel og skipulega. Um kvöldið var gengið til hvílu. Háttaði þá bóndi hjá hinni eldri konunni. Vinnumanni var og vísað til sængur og ætlaði hin yngri konan að byggja rekkju með honum. En er hún vildi upp í sængina hratt hann henni frá sér og sló hana um leið. Morguninn eftir fóru þeir bóndi og vinnumaður af stað og kvöddu. Þegar vinnumaður kvaddi stúlku sína mælti hún til hans:

„Fáðu hvorki kláða né kvef
og komi þér aldrei hor í nef.“

Segir sagan að þetta hafi rætzt; hann hafi veikzt og veslazt upp og dáið síðan úr þeim sjúkleik.