Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldumaðurinn úr Miðstapa
Huldumaðurinn úr Miðstapa
Þórunn hét mær ein gjafvaxta; hún var Magnúsdóttir. Hún ólst upp hjá foreldrum sínum í Vatnabúðum í Eyrarsveit. Þórunn þessi sagði Guðrúnu[1] svo sjálf frá að eitt kvöld þegar bærinn var lokaður, en Þórunn sat uppi á rúmi sínu og var að prjóna, sér hún að maður einn tígulegur gengur inn til sín með hatt á höfði og silfurhringju á; heilsar hann henni blíðlega og sezt niður hjá henni. Henni varð hverft við, því hún vissi að bærinn var lokaður, og spyr hver lauk upp fyrir honum. Hann svarar: „Ekki þarf ég né mínir líkar þess við, en það er erindi mitt að biðja þín til konu eða hverju viltu svara til þess?“ Hún mælti: „Hvernig á ég að svara því þar sem ég veit ekki hvert þú ert kristinn eða þekki nokkur deili á þér?“ Því svaraði hann: „Ég er fullt eins vel kristinn eins og þú og ef við bindum hjúskap okkar skaltu mega fara til hverrar kirkju sem þú vilt, vera til altaris og njóta annarar prestlegrar þjónustu að vild þinni og venju; en svo þú vitir þig ei vargefna – því ást á þér knýr mig einungis til – þá vil ég segja þér að ég er sýslumannsson, heiti Guðvarður og bý hér í Miðstapanum fyrir ofan Vatnabúðir,“ – og kveður hann henni engan ósóma mundi að verða þó hún færi með sér þar hann leiti þess með þvílíkri alúð; vildi hann þá leggja hönd um háls henni, en hún kvaðst hafa reigzt við og tekið um hönd hans og beðið hann góðlátlega að fara þess ekki á leit; væri það gagnstætt eðli sínu að unna huldumanni. Þá mælti hann: „Ástar minnar á þér nýtur þú að ég hefni ekki þverlyndis þessa og óvirðu við mig á þér, en ekki verður í allt séð; en ekki skaltu bregðast ókunnuglega við þó lítill fagnaður verði þér að hjónabandi þínu, og læt ég það um mælt.“ Hvarf hann síðan frá henni og var að sjá í döprum hug. Kvaðst Þórunn hafa verið rúmlega tuttugu ára þegar þetta bar við. Síðan giftist hún manni þeim sem Bjarni hét; hann var Jónsson, bróðir Jóns sem kallaður var þénari, því um hríð hafði hann verið skrifari kaupmanna undir Jökli. Bjarni maður Þórunnar var vel látinn og kallaður hugljúfi hvers manns, en það sagði Þórunn Guðrúnu og öðrum fáum vinkonum sínum að ekki gæti hann sýnt sér ástúð neina og sífellt væri hann sér ónotalegur; þó áttu þau börn saman. Kenndi hún um það álögum huldumannsins. Þórunn dó sjötug nú (1860) fyrir fjórum eða fimm árum.
- ↑ Þ. e. Guðrúnu Guðmundsdóttur skáldu.