Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldumenn á grasafjalli

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldumenn á grasafjalli

Svo bar einu sinni til að fólk sem var á grasafjalli sá í glaðasta sólskini tvo menn nokkuð einkennilega vera allskammt frá sér að tína grös og fylgdi þeim svartur hundur. Fólkið horfði stundarkorn á þessa menn og bar enginn kennsl á þá. Loksins fóru tveir úr hópnum á leið til þeirra, en þegar þeir vóru á leiðinni gengu hinir ókunnu menn fyrir lítið holt og sáust ekki framar, og engin merki sáust á jörðunni þar sem þeir sýndust vera, þess að grös hefði þar tínd verið. Og aldrei varð komizt fyrir þó reynt væri hvernig á þessari sýn stóð, og var því gjörð úr henni álfasaga.