Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Huldupilturinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Huldupilturinn

Hjón nokkur auðug bjuggu á bæ; þau áttu tvær dætur; hét önnur Margrét, en hin Ólöf. Margrét var í meiru uppáhaldi og var látin vera selmatselja á sumrum. Eitt sumar bar so til að lítill drengur kom til hennar nokkur kvöld þegar hún var að mjólka. Hann hafði með sér lítinn ask. Hann biður hana að gefa sér mjólk í hann. Margrét neitar því harðlega. Drengurinn kemur samt og það fer á sömu leið milli þeirra. Hún hótar hönum að hún skuli berja hann. Drengurinn fer grátandi þá í burt; hann fer heim til móður sinnar og segir henni frá; hún segist leggja það á Margréti að allt hvað hún meðhöndli, það eyðist fyrir henni með öllu móti. En þegar foreldrar hennar verða varir við þessa eyðslu hjá henni senda þau eftir henni og láta Ólöfu þangað aftur.

Þegar hún er þangað nýkomin kemur sami drengurinn með sinn litla ask. Hann segir að móður sín biðji að heilsa henni og biðji hana að gefa sér mjólk í þennan nóa því hún hafi ungbarn, en sé mjólkurlaus. Hann segir henni að hann hafi komið til systir hennar sama erindis, en ekkert fengið. Hún gefur drengnum að drekka og fyllir askinn og segir hönum að koma þegar hann vilji. Hann þakkar henni fyrir og fer heim mikið glaður til móður sinnar og segir að nú sé annað í efnum og önnur sé matselja en verið hafi og segir af ferð sinni. Móðir hans segist leggja það á að eins og eyðzt hafi hjá hinni skuli allt aukast og margfaldast hjá þessari.

Drengurinn hélt vana sínum að sækja mjólkina í selið í tvö sumur samfleytt; en þegar líður á seinna sumarið sér fólkið sem þar var með henni að hún [er] vanfær, en það dylur foreldra hennar þess. Eina nótt verður fólkið í selinu vart við að Ólöf tekur léttasótt; einn kvenmaður sem þar var ætlaði að koma til hennar og sá þá að karlmaður var hjá henni og gömul kona; hann dreypti á Ólöfu af munni sér. Kvenmaðurinn sér að hún elur barnið og gamla konan tekur við barninu, reifar það og fær síðan manninum. Þau kveðja so bæði Ólöfu, en hann þó innilegar, og ganga so burt með reifastrangann. So kemur kvenmaðurinn sem þetta sá inn og verður hjá henni. Ólöf biður hana að sjá um fyrir sig vegna þess að hún sé veik og muni ei komast á fætur í nokkra daga; en á hvörjum degi meðan Ólöf lá kom drengurinn að vitja um hana.

Nú líða fram stundir og ber ei til tíðinda þangað til móðir Ólufar verður veik og deyr úr þeirri sótt. Tekur Ólöf þá við öllum ráðum í hennar stað, en eftir að hún yfirgaf selveruna sá enginn maður hana glaða. Nú verða margir ungir menn til að biðja hennar, en hún neitar þeim öllum þangað til að ungur og ríkur maður sem var fyrirvinna hjá móður sinni biður hennar. Faðir Ólufar fylgir því fast fram so hún mátti til, sér sárnauðugt, að samþykkja hönum með því skilyrði að hann taki öngvan veturvistarmann án sinnar vitundar, hvurju maðurinn lofar. So gengur það fyrir sig að hún fer með hönum og tekur við öllum búforráðum, en er heldur óglöð jafnan þangað til móður hans biður Ólöfu að segja sér hvað valdi ógleði hennar. Hún er treg til þess, en segist skuli samt segja henni það ef hún leyni því, hvörju hin lofar. Síðan segir Ólöf upp alla söguna, en tengdamóðir hennar vorkennir henni mikið.

Á þriðja ári hjónabands þeirra, en tólfta frá því er Ólöf átti barnið í selinu, bar so til seint á slætti að tveir menn komu til bónda, nokkuð misaldra að sjá. Þeir heilsa hönum og létu hattana slúta so óglöggt sá í andlit þeim. Bóndi tók kveðju þeirra og spyr hvört þeir ætli að fara. Sá eldri segir að þeir vilji biðja hann veturvistar. Bóndi kvaðst ei vera vanur að taka þess háttar menn. Hinn skorar því fastara á þar til bóndi segist öngvu lofa þar um fyrr en [hann] hafi fundið konu sína. „Þá átt þú konuríki,“ segir aðkomumaður, „og skal ég það út bera hvar sem ég kem, ykkur til ósæmdar.“ Þá segir bóndi: „Heldur en það verði þá komi þið heim með mér.“ Síðan ganga þeir allir heim. Þá er kona hans í bæjardyrum. Hann gengur inn, en þeir bíða úti. Konan spyr hvörjir menn það séu sem komnir eru. Hann segist það ekki vita, en erindi þeirra sé að biðja veturvistar. Hún spyr hvört hann hafi því lofað. Hann segir það vera. Hún segir hann þá hafa brugðið loforð sitt. „Þá vil ég þó,“ segir hún, „nokkru ráða og er það að þeir séu ei innanbæjar.“ „Það skal þér veitast,“ segir hann. Hún gengur inn og fer að gráta, en bóndi losar skemmu er hann á og vísar þeim þangað, og þangað er þeim fært allt sem þeir þurfa, en konan kemur þangað aldrei; en hvört kvöld koma þeir til fólksins og halda sig þó helzt í skugganum, tala við öngvan mann nema ef bóndi yrðir á þá. En konan lætur sem hún sjái þá ekki. Líður so veturinn og fram á vor.

Það var einn sunnudag að hjónin ætluðu til altaris, og þá þau voru ferðbúin og höfðu kvatt fólkið sem þá var siður fara þau á stað. En þá þau eru komin skammt frá bænum spyr bóndi hana hvurt hún hafi kvatt fólkið. Hún segir það vera. Hann segir: „Og veturvistarmennina?“ Hún kvað það ei vera því hún hefði engin afskipti af þeim haft og ekkert á móti þeim gjört. Hann vill að hún fari heim aftur til þess, en hún er treg til þess, en hann leggur því fastara að henni þangað til hún segir að hann skuli sjá til að betur fari. Hún fer so, en þegar hönum lengir fer hann heim og sér að skemman er opin. Hann gengur að veggnum og heyrir að þau eru að skrafa saman. Hann gengur so að dyrunum og heyrir að hún segir: „Þann hef ég sætastan svaladrykk sopið af vörum þínum.“ Hann bíður ef hún talar fleira, en það verður ei. Hann fer so inn og eru þau þá í faðmlögum og bæði sprungin, en drengurinn situr þar hjá þeim grátandi. Bóndinn spyr hvörnin á þessu standi; drengurinn segir að þetta séu foreldrar sínir. Bónda féllst mikið um þetta og lætur síðan grafa þau bæði. En þegar það var búið hverfur drengurinn so enginn vissi hvað af hönum varð, og lýkur so þessari sögu.