Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Hvít mjólkuð af huldukonu

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Hér á bænum var bóndi nokkur – óvíst hvenær – sem átti margar kýr; þá var setið í fjósi á kvöldum. Einu sinni eftir vöku var vinnukonan að mjólka kýrnar, en er hún atlar að fara undir Hvít á hlöðubásnum segist hún hvergi finna spenana. Bóndinn sat á byrzlunni og bað hana hægt um hafa. Að stundu liðinni segir hann henni að mjólka Hvít. En því var svo varið: Á meðan verið var að mjólka sér bóndi hvar kvenmaður kemur inn í fjósið með ask í hendinni; nemur hún staðar á flórnum gagnvart bónda. Þá segir bóndi: „Mjólki þeir sem þörfina hafa.“ Gengur hún þá að bónda og klappar á kné honum. Þannig fór fram allan veturinn að konan mjólkaði Hvít á hverju kvöldi í askinn.

Um sumarið heyjaðist illa og atlaði bóndi að farga Hvít af heyjum.

Um haustið dreymdi hann þá hina sömu álfkonu. Spurði hún hann hvort hann atlaði að lóga Hvít sinni. Hann játaði því. Hún sagði þá [að] væri honum annars meira í mun að láta Hvít lifa, þá skyldi hann binda hana á básinn sinn og skipta sér ekki af henni framar; það væru þó ekki of miklu launaðir soparnir sem hún dóttir sín hefði sopið úr henni í fyrra þó hún liti til hennar.

Hvít var bundin inn um haustið undireins og aðrar kýr og ekkert skipt sér af henni framar. Oftast nær var hún að jórtra þegar verið var að gefa, ánægð og full, feit og féleg. Fór svo fram þangað til komin voru græn grös um vorið.